Hoppa yfir valmynd
29. febrúar 2012 Matvælaráðuneytið

Nýsköpun í stafrænni rannsóknartækni. Lögreglu um allan heim hefur bæst öflugur liðsauki í baráttunni gegn barnaklámi!  

Hækkandi sól - Ein góð frétt á dag
Hækkandi sól - Ein góð frétt á dag

Nýlega fór af stað nýtt samstarfsverkefni milli fyrirtækjanna Forensic Pathways Ltd. frá Bretlandi og hins íslenska Videntifier Technologies ehf., en fyrirtækin hafa bæði getið sér gott orð fyrir nýsköpun í hugbúnaðargerð fyrir stafræna rannsóknartækni ætlaða lögreglu. Samstarfið er innan Eurostar áætlunarinnar og leggja fyrirtækin saman hátæknilausnir sínar sem nýtast munu í baráttunni gegn misnotkun barna og hryðjuverkum. Nýja fyrirtækið mun hafa bækistöðvar í London, á Íslandi, í Ástralíu, í Asíu og Norður-Ameríku.

Bæði fyrirtækin hafa yfir að ráða háþróaðri tækni sem þekkir sjálfvirkt stafrænt efni í myndskrám og ljósmyndum, t.d. efni sem sýnir ofbeldi gegn börnum eða tengist hryðjuverkastarfsemi. Glæpasamtök eru gjarnan vel skipulögð og vel tengd alþjóðlega og það skiptir miklu að lögregluyfirvöld búi yfir öflugum hugbúnaði og tækjum til að greina og rannsaka mikið magn af margmiðlunarefni. Að sögn forráðamanna fyrirtækjanna hefur nútíma samskiptatækni gert það að verkum að myndbönd og ljósmyndir verða til í milljarðavís daglega, og efnið dreifist út um allt. Nýja tæknin fer í gegnum þetta mikla gagnamagn og ber kennsl á ólöglegt efni. Með þessu styttist rannsóknartími lögreglunnar,  rannsóknarlögreglumönnum er hlíft við andlega slítandi vinnu auk þess sem tæknin nýtist vel í alþjóðlegu samstarfi lögregluembætta og -deilda.

Videntifier Technologies var stofnsett árið 2007 af þremur nemendur við Háskólann í Reykjavík í samstarfi við IRISA-CNRS í Frakklandi – og byggir fyrirtækið á grunnhugmynd frá Dr. Birni Þór Jónssyni Háskólanum í Reykjavík og nemendum hans. Innan fyrirtækisins hefur verið þróuð lausn sem heitir VidentifierTM Forensic og byggir hún á hátæknigagnagrunnsvinnslu og sjónrænum aðferðum til að þekkja efni í videoskrám og kyrrmyndum. Hugbúnaðurinn auðveldar rannsóknarlögreglu að finna sönnunargögn í vídeoskrám á tölvum sem lagt hefur verið hald á vegna gruns um að í þeim sé ólöglegt efni.

Videntifier Technologies verkefnið hefur hlotið styrki m.a. frá Tækniþróunarsjóði og fyrri verkefni hafa hlotið styrki frá Tæknisjóði og Rannsóknasjóði RANNÍS. Þá aðstoðaði Evrópumiðstöð Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands við leit að samstarfsaðila sem með þeim góða árangri er Forensic Pathways LTD í Bretlandi.

Hækkandi sól - Ein góð frétt á dag

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta