Eru rafmagnsbílar við sjónarrönd? Ný kynslóð rafhlaða gæti lækkað verð um 50%!
Ef rafmagnsbílar verða framtíðin þá má segja að við Íslendingar höfum dottið í lukkupottinn! Þjóðin myndi spara óheyrilegar upphæðir sem nú renna úr landi til kaupa á bensíni - og af rafmagni eigum við jú gnógt! Og þar á ofan værum við laus við þá mengun sem fylgir bensín/diesel bílum.
Helstu farartálmarnir á þróunarbraut rafmagnsbíla hafa verið tveir; drægni þeirra hefur hingað til verið takmörkuð og verð á rafhlöðum hefur verið mjög hátt. En veður gætu skjótt skipast í lofti!
Í vikunni kynnti fyrirtækið Envia nýja kynslóð endurhlaðanlegra rafhlaðna sem eru hvort tveggja í senn umtalsvert langdrægari og allt að helmingi ódýrari en hefðbundnar rafhlöður fyrir bifreiðar. Þetta gæti flýtt þeirri þróun að fjöldaframleiðsla á rafmagnsbílum verði að veruleika.
Það verður spennandi á komandi misserum að fylgjast með þróun á umhverfisvænum bifreiðum. Við Íslendingar höfum sett okkur metnaðarfull markmið um orkuskipti í samgöngum sem skal náð fyrir árið 2020. Það verður góður dagur fyrir Ísland þegar síhækkandi heimsmarkaðsverð á olíu hættir að rugga íslenskum þjóðarhag.