Innritun í framhaldsskóla fyrir haustönn 2012
Upplýsingar um innritun í framhaldsskóla fyrir haustönn 2012.
Forinnritun nemenda í 10. bekk (fæddir 1996 eða síðar) hefst mánudaginn 12. mars og lýkur föstudaginn 30. mars. Nemendur fá bréf frá ráðuneytinu með veflykli að innritunarvef og leiðbeiningum afhent í grunnskólunum. Foreldrar/forráðamenn nemenda fá bréf í pósti frá ráðuneytinu með upplýsingum um innritunina. Ráðuneytið hvetur nemendur í 10. bekk eindregið til að taka þátt í forinnrituninni.
Innritun annarra en 10. bekkinga verður 4. apríl til 31. maí
Innritun eldri nemenda (fæddir 1995 eða fyrr) sem ekki eru nú í framhaldsskóla eða ætla að skipta um skóla hefst miðvikudaginn 4. apríl og lýkur fimmtudaginn 31. maí. Umsækjendur þurfa að sækja veflykil að innritunarvef á menntagatt.is.
Lokainnritun nemenda í 10. bekk verður 4. maí til 8. júní
Nemendur í 10. bekk hafa frest til sækja um nám í framhaldsskóla eða breyta umsóknum úr forinnritun til miðnættis föstudaginn 8. júní. Einkunnir þeirra verða sendar rafrænt frá grunnskólum til framhaldsskóla eftir skólaslit.
Starfsbrautir fyrir fatlaða
Rafrænni innritun á starfsbrautir lauk 29. febrúar sl. Þeir sem hafa ekki nú þegar sótt um geta sent viðkomandi framhaldsskóla skriflega umsókn til 1. apríl nk. Stefnt er að afgreiðslu allra umsókna á starfsbrautir fyrir lok apríl.
Fjar- og dreifnám og nám í kvöldskóla
Innritun í fjar- og dreifnám og í kvöldskóla fer fram samkvæmt fyrirkomulagi sem einstakir framhaldsskólar auglýsa. Upplýsingar um framhaldsskóla má fá á menntagatt.is.
Nánari upplýsingar um innritun í framhaldsskóla má fá á Menntagátt
og hjá Kristrúnu Birgisdóttur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu í síma 545 9546.