Hoppa yfir valmynd
1. mars 2012 Matvælaráðuneytið

Ný reglugerð lækkar dreifingarverð raforku til garðyrkjubænda og annarra stórra orkukaupenda í dreifbýli

Iðnaðarráðuneytið gaf út í dag út reglugerð þar sem komið er til móts við hagsmuni stórra raforkunotenda í dreifbýli. Með reglugerðinni er, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, heimilt að láta almenna gjaldskrá viðkomandi dreifiveitu gilda á svæðum þar sem íbúar eru fáir  en raforkunotkun mikil. Er þá litið á slík afmörkuð svæði sem „þéttbýli“ í skilningi reglugerðar nr. 1040/2005.

Um nokkurt skeið hefur á vegum ráðuneytisins verið starfandi starfshópur með fulltrúum frá Sambandi garðyrkjubænda, fiskimjölsframleiðendum, Samtökum iðnaðarins, RARIK og Orkustofnun um leiðir til að koma til móts við svæði í dreifbýli þar sem raforkunotkun er mikil (þ.e. að hefðbundin „dreifbýlisgjaldskrá“ gildi ekki á slíkum svæðum).

Varðandi þau viðmið sem stuðst er við í reglugerðinni þá er gert ráð fyrir að tvenns konar svæði geti fallið undir breytinguna.

Annars vegar þar sem um er að ræða byggðakjarna með a.m.k. 50 íbúum, fjarlægð frá afhendingarstað Landsnets sé innan við 10 kílómetrar og heildarraforkunotkun á svæðinu sé a.m.k. 8 GWst. Hér er fyrst og fremst horft til garðyrkjubænda í dreifbýli.

Hins vegar svæði sem skilgreint er sem iðnaðarsvæði með a.m.k. 10 notendur og hafnaraðstöðu, fjarlægð frá afhendingarstað Landsnets sé innan við 10 kílómetrar og heildarraforkunotkun á svæðinu sé a.m.k. 8 GWst. Hér er verið að horfa til iðnaðarsvæða í dreifbýli þar sem raforkunotkun er mikil og notendur a.m.k. 10.

Með útgáfu reglugerðarinnar er því komið til móts við hagsmuni stórra raforkunotenda í dreifbýli (sem þó eru ekki „stórnotendur“) án þess að raskað sé um of heildarfyrirkomulagi varðandi gjaldtöku fyrir dreifingu raforku.

Reglugerðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta