Drög að frumvarpi til efnalaga í umsögn
Drög að frumvarpi til efnalaga eru nú til umsagnar hjá hagsmunaaðilum og almenningi. Meginmarkmið frumvarpsins er að tryggja öryggi neytenda við meðferð á efnum og efnablöndum þannig að þau valdi ekki tjóni á heilsu manna, dýra eða umhverfi.
Á vordögum 2011 hófst á vegum ráðuneytisins og Umhverfisstofnunar heildarendurskoðun efnalaga. Litið var til þess að eldri lög nr. 52/1988 um eiturefni og hættuleg efni eru komin til ára sinna og óþarflega flókin. Þá hafa önnur lög tekið gildi samhliða þeim lögum, lög nr. 45/2008 um efni og efnablöndur, og fjöldinn allur af reglugerðum sem eiga sér stoð í þeim lögum.
Sömuleiðis var ljóst að skoða þyrfti frá grunni eftirlits- og leyfisveitingarkerfi vegna efna hér landi auk þess sem nauðsynlegt er orðið að samræma íslenska löggjöf að evrópskri. Hefur krafa um endurskoðun og einföldun lagaumhverfis á þessu sviði þó ekki síst komið frá þeim sem starfa eftir því sem og neytendum.
Í frumvarpinu er leitast við að einfalda eftirlit með það að leiðarljósi að gera það markvissara þannig að það auki á öryggi hins almenna borgara. Er lagt til að eftirlitið sé á einni hendi, þ.e. Umhverfisstofnunar, og samræmt á öllu landinu. Þannig er betur tryggt að allir landsmenn búi við öflugt efnaeftirlit. Gert er ráð fyrir að Umhverfisstofnun útbúi eftirlitsáætlun til þriggja ára í senn sem m.a. myndi innihalda sértæk eftirlitsverkefni þar sem áhersla yrði á öryggi almennings og umhverfisvernd.
Í frumvarpinu eru einnig að finna nýmæli varðandi fjármögnun eftirlits, þvingunarúrræði og viðurlög en m.a. er lagt til að Umhverfisstofnun fái heimild til að beita stjórnvaldssektum.
Drögin að frumvarpinu hafa verið send hagsmunaaðilum og er umsagnarfrestur til 6. mars nk.