Hoppa yfir valmynd
5. mars 2012 Matvælaráðuneytið

Efnahags- og viðskiptaráðherra skipar Dr. Katrínu Ólafsdóttur í peningastefnunefnd Seðlabankans

Efnahags- og viðskiptaráðherra hefur skipað Dr. Katrínu Ólafsdóttur, lektor við Háskólann í Reykjavík, fulltrúa í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands.

Katrín er lektor við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík. Hún starfaði áður sem hagfræðingur hjá greiningardeild Landsbanka Íslands 2002-2003, forstöðumaður þjóðhagsspár hjá Þjóðhagsstofnun 1999-2002 og sem sérfræðingur á efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins 1991-1998. Katrín lauk doktorsprófi í vinnumarkaðshagfræði frá Cornell háskóla í New York árið 2009. Áður hafði hún lokið meistaranámi í hagfræði við sama skóla og AB gráðu í hagfræði með stærðfræði sem aukagrein við Occidental College í Los Angeles.

Ákvarðanir um beitingu stjórntækja Seðlabanka Íslands í peningamálum eru teknar af peningastefnunefnd. Stjórntæki bankans teljast í þessu sambandi vera vaxtaákvarðanir hans, viðskipti við lánastofnanir önnur en tilgreind eru í 2. mgr. 7. gr., ákvörðun bindiskyldu skv. 11. gr. og viðskipti á gjaldeyrismarkaði skv. 18. gr. sem hafa það að markmiði að hafa áhrif á gengi krónunnar. Ákvarðanir peningastefnunefndar skulu grundvallast á markmiðum Seðlabanka Íslands og vönduðu mati á ástandi og horfum í efnahags- og peningamálum og fjármálastöðugleika.

Í peningastefnunefnd sitja seðlabankastjóri, sem er formaður, aðstoðarseðlabankastjóri, einn af yfirmönnum bankans á sviði mótunar eða stefnu í peningamálum og tveir sérfræðingar á sviði efnahags- og peningamála sem efnahags- og viðskiptaráðherra skipar til fimm ára í senn.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta