Sendinefnd AGS segir Ísland hafa náð miklum árangri
Eftir tvö ár af samdrætti varð hagvöxtur á ný á Íslandi í fyrra, auk þess sem atvinnuleysi minnkaði. Þetta er meðal þess sem kom fram í tilkynningu sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að lokinni heimsókn til landsins á dögunum.
Sendinefnd AGS býst við 2,5% hagvexti árið 2012 og að fjárfesting taki við sér. Til lengri tíma litið verði hagvöxtur í meðallagi og atvinnuleysi fari áfram lækkandi. Hins vegar haldist verðbólga yfir markmiði Seðlabankans árið 2012, en taki svo að lækka niður í 2,5%
Hægst hefur á áætlun um jöfnuð í opinberum fjármálum, að mati sendinefndarinnar, en búist er við jákvæðum frumjöfnuði á ríkissjóði í ár. Mælt er gegn því að ríkisútgjöld verði aukin umfram áætlanir, svo áætlun í ríkisfjármálum standist í grófum dráttum og stjórnvöldum verði kleift að greiða niður skuldir á næstu árum.
Sendinefndin fagnar árangri við endurskipulagningu skulda, en bráðabirgðatölur gefa til kynna að um 80% af umsóknum um niðurfærslur á lánum hafi þegar komið til framkvæmda. Frekari niðurfærslur séu líklegar til að koma til vegna lagaóvissu um gengistryggð lán. Hvatt er til þess að tillögum um almennar afskriftir lána verði hafnað, þar sem þær séu kostnaðarsamar, bæti enn á skuldir ríkissjóðs og gagnist síst þeim sem þurfa á aðstoð að halda.
Hvað varðar peningastefnu Seðlabankans hvetur sendinefndin til aukins aðhalds vegna þróunar verðbólgu og framkvæmdar áætlunar um afnám gjaldeyrishafta.