Danir styðja aðild Íslands að ESB
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, fundaði í gærkvöldi með Nicolai Wammen, Evrópumálaráðherra Danmerkur. Utanríkisráðherra gerði grein fyrir stöðu aðildarviðræðna Íslands og ESB sem hleypt var af stokkunum um mitt síðasta ár, og lýsti þeim vilja íslenskra stjórnvalda að helstu hagsmunamál Íslands, sjávarútvegur, landbúnaður, byggðamál og myntsamstarf, yrðu tekin fyrir sem fyrst. Evrópumálaráðherrann ítrekaði stuðning Danmerkur við aðild Íslands að ESB Danmerkur en Danir gegna formennsku í Evrópusambandinu fram á mitt þetta ár. Ráðherrarnir ræddu meðal annars stöðuna á evrusvæðinu og sagði Wammen Evrópusambandið hafa gripið til róttækra ráðstafana til að auka aga og aðhald í efnahagsstjórn aðildarríkjanna. Hann sagði Dani styðja hinn nýja sáttmála um fjármálastöðugleika sem undirritaður var í síðustu viku en danska krónan er fasttengd evrunni í gegnum sérstakt samkomulag um þátttöku Danmerkur í gengissamstarfinu ERM II. Nicolai Wammen hitti í dag forsætisráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, auk fulltrúa úr utanríkismálanefnd Alþingis.