Hótelin gerðu það gott í janúar. Gistinóttum fjölgaði um 34%!
Gistinætur á hótelum í janúar voru 71.600 samanborið við 53.600 í janúar 2011. Þetta er enn ein staðfestingin á þeim stöðuga vexti sem verið hefur í ferðaþjónustunni.
Gistinætur erlendra gesta voru um 81% af heildarfjölda gistinátta í janúar en gistinóttum þeirra fjölgaði um 37% samanborið við janúar 2011. Á sama tíma fjölgaði gistinóttum Íslendinga um 21%.
Séu einstök landsvæði skoðuð þá voru gistinætur á hótelum höfuðborgarsvæðisins 59.500 í janúar og fjölgaði um 34% frá fyrra ári. Á Norðurlandi voru 2.300 gistinætur í janúar sem er 52% aukning frá fyrra ári. Á Suðurlandi voru gistinætur 4.700 eða 44% fleiri en í janúar 2011. Á Suðurnesjum voru gistinætur 3.500 sem er 21% aukning frá fyrra ári. Á samanlögðu svæði Vesturlands og Vestfjarða fjölgaði gistinóttum einnig milli ára, voru 900 samanborið við 800 í janúar 2011. Á Austurlandi voru gistinætur á hótelum í janúar svipaðar á milli ára eða um 800.
Það er Hagstofan sem heldur utan um talninguna og rétt er að taka fram að tölurnar ná eingöngu til hótela sem opin eru allt árið þannig að til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann.