Norræn menningarhátíð í Kennedy Center
Menningarstofnunin Kennedy Center í Washington DC stendur fyrir norrænni menningarhátíð dagana 19. febrúar til 17. mars 2013 með fjölda menningarviðburða frá Norðurlöndunum og sjálfsstjórnarsvæðunum. Hér er á ferðinni stærsta tækifæri sem Norðurlöndin og þar með talið Ísland hafa fengið um árabil til að koma á framfæri menningu sinni, listum og skapandi greinum en hátíðin mun fá mikla kynningu í Washington DC og um öll Bandaríkin.
Kennedy Center er ein virtasta og öflugasta menningarstofnun Bandaríkjanna. Í henni eru leikhús, tónleikasalir og danssvið sem henta stórum og smáum viðburðum, og verður höfuðáhersla hátíðarinnar á leiklist, tónlist og dans. Á göngum og í ýmsum rýmum hússins verður komið fyrir norrænni myndlist, norrænni hönnunarsýningu, og aðstaða verður fyrir tölvuleiki og ýmsa fræðslu fyrir börn. Einnig verða á hátíðinni sýndar norrænar kvikmyndir og norrænar bókmenntir kynntar. Á veitingastöðum hússins verður matur frá Norðurlöndunum á boðstólum.
Hátíðin var kynnt á blaðamannafundi í Washington í dag og dagskráin gerð opinber. Kennedy Center valdi sjálft fulltrúa Íslands sem gert er ráð fyrir að verði Sinfóníuhljómsveit Íslands, Íslenski dansflokkurinn, leikhópurinn Vesturport, Maximús Musikus, Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari, hljómsveit Sunnu Gunnlaugsdóttur djasspíanóleikara og Duo Harpverk. Einnig verða á dagskránni íslenskar kvikmyndir, hönnun, bókmenntir, matargerð og tölvuleikir sem kynntar verða sem hluti af norrænum sýningum og viðburðum.
Kennedy Center skipuleggur hátíðina sem stendur í alls fjórar vikur og stendur straum að langstærstum hluta kostnaðar. Einnig er reiknað með ákveðnu fjárframlagi úr norrænum sjóðum og frá Norðurlöndunum sjálfum.
- Hjálögð er fréttatilkynning Kennedy Center þar sem lesa má um þá norrænu viðburði sem ráðgerðir eru á norrænu menningarhátíðinni.