Já - það er VINNANDI VEGUR að tryggja allt að 1500 atvinnuleitendum störf og starfstengd úrræði!
Fimmtudaginn 8. mars verður haldin atvinnumessa í Laugardalshöllinni. Með því er verið að hrinda í framkvæmd aðgerðum sem eiga að tryggja allt að 1500 atvinnuleitendum störf og starfstengd úrræði. Sérstök áhersla er lögð á langtímaatvinnulausa í þessu átaki. Slíkar atvinnumessur munu einnig fara fram nokkru síðar í Reykjanesbæ og á Akureyri og hefur fjölda fyrirtækja og stofnana verið boðið að vera með kynningarbása á messunni á öllum stöðum. Nýsköpunarmiðstöð Íslands verður í Laugardalshöllinni á morgun þar sem sérstök áhersla verður lögð á úrræði sem Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Vinnumálastofnun hafa sett saman og snúa að virkjun á eigin frumkvöðlastarfi.
Samráðshópur stjórnvalda, stjórnmálaflokka og aðila vinnumarkaðarins um menntun og vinnumarkaðsúrræði skilaði 31. mars 2011 tillögum sínum til ríkisstjórnarinnar um átak til þriggja ára. Tillögur hópsins báru yfirskriftina Í NÁM - TIL VINNU. Tillögurnar og fjármögnun þeirra voru til umfjöllunar í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í maí 2011 og varð samkomulag um það efni, sem fram kom í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 5. maí 2011.
Sérstök áhersla er lögð á hvata og úrræði fyrir langtímaatvinnulausa. Átakið hefur hlotið nafnið VINNANDI VEGUR. Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg munu beita sér fyrir því að sveitarfélögin skapi a.m.k. helming starfa eða starfstengdra úrræða innan verkefnisins, alls 750 störf. Áætlað er að fyrirtæki á almennum vinnumarkaði munu skapa hinn helminginn.
Átakið tekur til allra atvinnuleitenda með sérstakri áherslu á þá einstaklinga sem hafa verið án vinnu lengur en 12 mánuði.