Samningar undirritaðir um hjálparlið almannavarna
Innanríkisráðherra, ríkislögreglustjóri og fulltrúar Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og Rauða kross Íslands undirrituðu í dag samninga vegna hjálparliðs almannavarna. Samningarnir eru gerðir með hliðsjón af 8. gr. laga um almannavarnir nr. 82/2008 þar sem kveðið er á um heimild ríkislögreglustjóra til að gera slíka samninga með samþykki ráðherra.
Samningana undirrituðu Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra, Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri, Anna Stefánsdóttir, formaður Rauða kross Íslands, og Hörður Már Harðarson, formaður Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Fjórmenningarnir lýstu ánægju með undirritun samkomulagsins og ráðherra sagði þá tímamót og að íslensk þjóð væri blessuð af góðu samstarfi þeirra aðila er að samningunum kæmu.
Samkomulagið við Rauða krossinn kveður á um hlutverk landsskrifstofu RKÍ og einstakra deilda í heildarskipulagi vegna almannavarna og skilgreinir tengsl stjórnskipulags RKÍ við skipulag almannavarna á hættu- og neyðartímum. Samkomulagið við Slysavarnafélagið Landsbjörg kveður á um hlutverk landsstjórnar björgunarsveita, svæðisstjórna og sveita og deilda í heildarskipulagi vegna almannavarna og skilgreinir tengsl stjórnskipulags Slysavarnafélagsins Landsbjargar við skipulag almannavarna vegna aðgerða á hættu- og neyðartímum.