Hoppa yfir valmynd
8. mars 2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Starfshópur um myrkurgæði skipaður

Ljósmynd: Silje Bergum Kinsten/norden.org
Sólarlag við Blönduós.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra hefur skipað starfshóp um myrkurgæði, en hópnum er ætlað að taka saman upplýsingar um þau lög og reglur sem gilda um ljósmengun á Íslandi og víðar. Hópurinn skal skila tillögum um hugsanlegar úrbætur á þessu sviði til umhverfisráðherra næstkomandi haust.

Ákveðið var að skipa starfshópinn í framhaldi af fyrirspurn Marðar Árnasonar þingmanns á Alþingi í janúar síðastliðnum um ljósmengun. Meðal verkefna hópsins er að hafa samráð við fræðimenn um hver séu heppileg mælanleg markmið um myrkurgæði á ýmsum tegundum þéttbýlissvæða og í dreifbýli.  Sömuleiðis mun hópurinn afla vitneskju um ráðstafanir gegn ljósmengun í öðrum ríkjum og hvort þar sé stuðst við staðla eða önnur viðmið í þessu sambandi. Hópurinn mun einnig kanna möguleika á að stofna til samstarfsvettvangs með aðild sveitarfélaga, fyrirtækja, félagasamtaka og einstaklinga um að hrinda af stað vitundarvakningu í þessum efnum. Loks er stefnt að því að hópurinn standi fyrir málþingi þar sem fyrstu niðurstöður hópsins verða kynntar og kallað verður eftir athugasemdum almennings.

Stefnt er að því að hópurinn skili niðurstöðum sínum til umhverfisráðherra næstkomandi haust þar sem settar yrðu fram tillögur um ákvæði sem taki til ljósmengunar og myrkurgæða í lögum, reglugerðum og samþykktum ríkis og sveitarfélaga. Að auki mun hópurinn gera drög að áætlun um nauðsynlegar rannsóknir á áhrifum ljósmengunar á myrkurgæði helstu þéttbýlissvæða á Íslandi, og hversu langt hún nær út fyrir þéttbýliskjarnana.

Formaður starfshópsins er Mörður Árnason þingmaður en auk hans sitja í hópnum Snævarr Guðmundsson landfræðingur, Inga Sigrún Atladóttir, forseti bæjarstjórnar í Sveitarfélaginu Vogum, Íris Bjargmundardóttir, lögfræðingur í umhverfisráðuneytinu og Andrés Ingi Jónsson, aðstoðarmaður umhverfisráðherra.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta