Á þriðja hundrað manns fundaði um heilbrigðisstefnu
Velferðarráðuneytið stóð í dag fyrir fjölmennum vinnufundi þar sem rætt var um mótun nýrrar stefnu og aðgerðaáætlunar í heilbrigðismálum. Fundurinn var með þjóðfundasniði þar sem saman kom breiður hópur fólks með fjölbreyttan bakgrunn til að fá fram sem víðasta sýn á viðfangsefnið.
Nýja áætlunin mun leysa af hólmi heilbrigðisáætlun til ársins 2010 og á þar að birtast framtíðarsýn í heilbrigðismálum landsmanna ásamt aðgerðaáætlun til ársins 2015. Byggt verður á fyrirliggjandi stefnum í málaflokkum, alþjóðlegri þróun heilbrigðismála og nýrri þekkingu.
Þátttakendur fundarins störfuðu í litlum vinnuhópum þar sem fjallað var um afmörkuð málefni. Unnið var að því að skilgreina meginmarkmið nýrrar heilbrigðisáætlunar fyrir 29 málaflokka sem falla undir heilbrigðismál. Þetta eru málaflokkar sem lúta einkum að lýðheilsu, heilbrigðisþjónustu og öryggi og gæðum þjónustunnar. Jafnframt var þátttakendum falið að setja fram tillögur að mælanlegum markmiðum undir hverju meginmarkmiði og loks að leggja fram tillögur að aðgerðum til að ná markmiðunum.
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra ávarpaði fundarmenn áður en þeir tóku til starfa og lagði áherslu á hve þakklátur hann væri fyrir góða þátttöku og auðsýndan vilja fólks til að koma að þessu viðamikla starfi og leggja sitt af mörkum:
„Niðurstöður vinnunnar hér í dag verða hryggjarstykkið í heilbrigðisáætlun sem ég mun leggja fyrir Alþingi Íslendinga næsta haust. Markið er þó sett enn hærra, því vilji minn stendur til þess að mótaðar verði stefnur í öllum helstu málaflokkum sem heyra undir velferðarráðuneytið og þær birtar í heildstæðri velferðarstefnu sem stefnt er að því að taki gildi árið 2015.“