Hoppa yfir valmynd
9. mars 2012 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Góðirstjórnarhættir og fjölbreytni í stjórnum skiptir máli

Samtök atvinnulífsins, Viðskiptaráð Íslands, Félag kvenna í atvinnurekstri, Kauphöllin, Samtök verslunar og þjónustu og efnahags- og viðskiptaráðuneytið efndu til morgunverðarfundar fimmtudaginn 8. mars um mikilvægi góðra stjórnarhátta og fjölbreytni í stjórnum. Fundurinn var afar vel sóttur en um 250 manns sóttu fundinn sem fór fram í aðalsal Hótel Nordica.

Framundan er tími aðalfunda en eftir tæp tvö ár eða í september 2013 taka gildi ný lög sem kveða á um að hlutfall hvors kyns verði aldrei lægra en 40% í stjórnum stærri fyrirtækja. Alls falla 285 fyrirtæki undir löggjöfina en af þeim uppfylla 45% ákvæði laganna nú þegar. 55% fyrirtækjanna þurfa því að bæta konu eða konum í stjórnina en eitt fyrirtæki þarf að bæta við karli í stjórnina.

Alls vantar 192 konur í stjórnir til að jafna kynjahlutföll þeirra en á fundinum lagði Félag kvenna í atvinnurekstri fram lista yfir 200 öflugar konur sem bjóða fram krafta sín til setu í stjórnum íslenskra fyrirtækja. Listann má nálgast á vef FKA.

Samtök atvinnulífsins fjölga konum í stjórnum lífeyrissjóða

Fyrrgreind löggjöf nær einnig til stjórna 32 lífeyrissjóða landsins en á fundinum var tilkynnt að Samtök atvinnulífsins hafa  tilnefnt 14 stjórnarmenn til setu í stjórnum átta lífeyrissjóða til næstu tveggja ára. Af þeim eru 10 konur eða rúmlega 71%. Samtök atvinnulífsins hafa á undanförnum árum unnið markvisst að því að jafna kynjahlutföll í stjórnum þeirra lífeyrissjóða sem SA tilnefna stjórnarmenn í og munu konur því skipa 44% sæta SA að loknum aðalfundum sjóðanna í vor. Aðeins vantar 1-2 konur í viðbót til að alveg jafnt kynjahlutfall náist meðal 25 fulltrúa Samtaka atvinnulífsins í stjórnum sjóðanna. Það mun nást á næsta ári þegar 10 sæti koma til tilnefningar og lokaskrefið verður stigið til að jafna hlut kynjanna. Þá verða konur 12 eða 13 af 25 stjórnarmönnum SA, þ.e. annað hvort 48% eða 52%.

Nýjar leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja

Ný útgáfa leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja var gefin einnig gefin út á fundinum. Að útgáfunni standa Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins og NASDAQ OMX Iceland. Í þessari 4. útgáfu leiðbeininganna er að finna fjölmargar breytingar frá síðustu útgáfu, sem eiga það þó flestar sammerkt að vera formbreytingar fremur en viðamiklar efnisbreytingar.

Markmið leiðbeininganna er, sem fyrr, að bæta stjórnarhætti með því að skýra hlutverk og ábyrgð stjórnenda fyrirtækja, auðvelda þeim þannig að rækja störf sín og um leið treysta hag helstu hagsmunaaðlia fyrirtækja. Leiðbeiningunum er ætlað að sýna vilja viðskiptalífsins í verki til að mæta þeirri ábyrgð sem á því hvílir og frumkvæði þess við að taka upp viðmið sem styrkja innviði fyrirtækja og efla traust almennt gagnvart viðskiptalífinu.

Þó leiðbeiningunum sé sérstaklega beint að fyrirtækjum sem teljast tengd almannahagsmunum, s.s. skráðum félögum, fjármálafyrirtækjum, vátryggingafélögum og lífeyrissjóðum, þá geta þær gagnast öllum fyrirtækjum, óháð stærð þeirra og starfsemi. Við gerð leiðbeininganna var efnis leitað víða, en sérstök áhersla var lögð á að þær stæðust samanburð við meginefni Norrænna leiðbeininga á þessu sviði.

Helstu nýjungar leiðbeininganna eru:

  • Aukið er á upplýsingagjöf um aðila í framboði til stjórnar
  • Lagt er til að stjórn skilgreini árlega mikilvægustu verkefni sín
  • Kveðið er á um hvernig skuli haga upplýsingagjöf um samskipti utan stjórnarfunda
  • Lagt er til að í starfsreglum stjórnar sé fjallað um valdheimildir framkvæmdastjóra
  • Óhæðisviðmið hafa verið einfölduð og útfærð nánar m.a. m.t.t. fjölskyldutengsla
  • Lagt er til að stjórn skilgreini árlega þá áhættuþætti sem mikilvægast er að fyrirtækið takist á við
  • Nýr liður er um fundargerðir stjórnarfunda
  • Kaflinn um undirnefndir stjórnar hefur verið einfaldaður sem og kaflinn um innra eftirlit
  • Aukið er á upplýsingagjöf á vefsíðum fyrirtækja
  • Meginatriði leiðbeininga um stjórnarhætti opinberra fyrirtækja hafa verið færð í viðauka við nýju leiðbeiningarnar

Leiðbeiningarnar eru aðgengilegar í rafrænu formi hér.

Eintök af leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja í skýrsluformi má panta á skrifstofu Viðskiptaráðs. Leiðbeiningarnar kosta 3.000 kr. Ensk útgáfa leiðbeininganna verður aðgengileg á vefsíðum útgáfuaðila á næstunni.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta