Verkefnissamningur um fjármögnun Kím Medical Park undirritaður
Frumkvöðlasetrið KÍM-Medical Park er vettvangur sprotafyrirtækja á heilbrigðissviði þar sem þau fá aðstöðu og faglega þjónustu við þróun viðskiptahugmynda og uppbyggingu fyrirtækja sinna. KÍM var sett á laggirnar fyrir þremur árum og með nýjum samningi milli iðnaðarráðuneytisins, velferðarráðuneytisins og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands er starfsgrundvöllur til næstu þriggja ára tryggður.
Oddný G Harðardóttir iðnaðarráðherra, Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra og Þorsteinn Ingi Sigfússon forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands undirrituðu samninginn sem er til þriggja ára og nema árlegar greiðslur til KÍM þremur milljónum króna.
Markmið samningsins er að efla nýsköpun í heilsutengdri starfsemi því að reka sérhæft frumkvöðlasetur þar sem sprotafyrirtæki geta fengið aðstöðu og faglega þjónustu við þróun viðskiptahugmynda og uppbyggingu fyrirtækja sinna.
Frumkvöðlasetrið er í 1.300 fermetra húsnæði í Vatnagörðum 18 með skrifstofuaðstöðu og fullbúnum rannsóknarstofum. Á setrinu er aðstaða fyrir allt að 20 sprotafyrirtæki og 60 starfsmenn.
Framkvæmdastjóri KÍM er Sigríður Ingvarsdóttir.