Genis setur upp lyfjaverksmiðju á Siglufirði
Lyfjaþróunar fyrirtækið Genis hf kynnti nýlega áform sín um að setja upp verksmiðju á Siglufirði til framleiðslu á líftæknivörum sem það hefur þróað. Vörurnar eru unnar úr fásykrungum sem unnir eru úr rækjuskel og er annars vegar um að ræða lyf til inntöku sem að vinnur á sjúkdómum sem eiga uppruna sinn í bólgum í líkamanum og hins vegar beinfyllingarefni sem örvar vöxt beinfruma.
Rannsóknarsetur Genis hf er staðsett á frumkvöðlasetrinu KÍM Medical Park í Reykjavík sem rekið er af Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Þar starfa þrír vísindamenn við rannsóknir en öllum stærri rannsóknum félagsins er úthýst til rannsóknarfyrirtækja um allan heim.
Framtíðar starfsemi félagsins Genis mun verða í húsnæði við smábátahöfnina á Siglufirði þar sem að bátasmiðjan Siglufjarðar Seigur er nú til húsa.Miklar breytingar verða gerðar á útliti hússins til að aðlaga það að byggingum í nágrenninu. Starfsemi félagsins mun fara hægt af stað en áætlað er að framleiðsla hefjist fyrri hluta næsta árs. Reiknað er með að um tíu starfsmenn vinni við verksmiðjuna til að byrja með. Á aðalfundi félagins var ákveðið að auka hlutafé félagsins um fimm hundruð milljónir króna til að fjármagna uppbyggingu á framleiðslueiningunni og til frekari rannsókna.