Hoppa yfir valmynd
12. mars 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Íslandsmót iðn- og verkgreina

Mennta- og menningarmálaráðherra setti mótið og átti fund með forseta World Skills
iðn og verkgreinar 2012
iðn og verkgreinar 2012

Katrín Jakobsdóttir menningar- og menntamálaráðherra setti Íslandsmótið og Menntadag iðnaðarins föstudaginn 9. mars sl. í Háskólanum í Reykjavík.

Keppnin í ár var sú stærsta til þessa með 170 þátttakendum, sem kepptu í 19 iðn- og verkgreinum, svo sem grafískri miðlun, byggingagreinum, bílgreinum, matreiðslu, framreiðslu, hársnyrtingu, pípulögnum o.fl.

Þátttakendur á Íslandsmótinu voru nemendur í iðn- og verkgreinaskólum landsins og þeir sem nýlega hafa lokið námi. Aldurstakmark þátttakenda miðaðist við þá sem verða 21 á árinu en gerðar voru undanþágur í nokkrum greinum.

Íslandsmótið veitir ungu fólki tækifæri til sýna fram á færni sína og kunnáttu í iðn- og verkgreinunum. Tekist er á við krefjandi og raunveruleg verkefni í samkeppni sem reynir á hæfni, skipulagshæfileika og fagmennsku. Dómarar fara yfir verkefnin að lokinni keppni, meta gæðin og velja þá sem skara fram úr í hverri grein. Skólarnir hafa þegar valið sitt besta fólk í keppnina.

Keppninni er fyrst og fremst ætlað að vekja athygli á iðn- og verkgreinum og þeim tækifærum sem felast í námi og störfum í iðngreinum – ekki síst ungu fólki á grunnskólaaldri. Grunnskólanemendum í 9. og 10. bekkjum landsins var því boðið sérstaklega og um 1900 nemendur og kennarar grunnskólanna boðuðu komu sína.

Árið 2011 gerði mennta- og menningarmálaráðuneyti samning við Verkiðn, samtök um keppnir í iðn- og verkgreinum á Íslandi, um aðgerðir til að efla fagmennsku í iðn- og verkgreinum, auka sýnileika þeirra og bæta ímynd þessara greina. Meðal verkefna Verkiðnar er að sjá um þátttöku íslenskra fulltrúa í alþjóðlegum keppnum í iðn- og verkgreinum. Í tengslum við Íslandsmótið kom hingað til lands Simon Bartley, forseti World Skills og hann átti fund með mennta- og menningarmálaráðherra ásamt stjórn Verkiðnaðar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta