Hoppa yfir valmynd
12. mars 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Rætt um málefni fatlaðs fólks í alþjóðlegu ljósi á málþingi á fimmtudag

Velferðarráðuneytið býður til málþings næstkomandi fimmtudag í samstarfi við forsætisráðuneytið, innanríkisráðuneytið, embætti landlæknis, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Öryrkjabandalag Íslands, Landssamtökin Þroskahjálp og Rannsóknasetur í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands. Fjallað verður um málefni fatlaðs fólks í alþjóðlegu ljósi.

Fjallað verður um skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og Alþjóðabankans um fötlun. Málþingið fer fram á Grand hóteli í Reykjavík fimmtudaginn 15. mars klukkan 13.15 til 16.30. Málþingið verður rit- og táknmálstúlkað. Tónmöskvar verða á staðnum. Allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis. 
 
Tom Shakespeare sérfræðingur hjá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, kynnir efni fyrstu alþjóðaskýrslunnar um fötlun og aðstæður fatlaðs fólks. Í skýrslunni er fjallað um helstu málefni sem snerta fatlað fólk svo sem heilbrigði, menntun, atvinnu, stuðning og þjónustu, aðgengi og hindranir í umhverfinu. Þar eru einnig tillögur um framþróun í málefnum fatlaðs fólks en megintilgangur skýrslunnar er að veita alþjóðlegar leiðbeiningar um innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Eftir kynningu Tom Shakespeare eru stutt innlegg frá fulltrúum forsætisráðuneytis, velferðarráðuneytis, og innanríkisráðuneytis, embætti landlæknis, fulltrúum hagsmunasamtaka fatlaðs fólks og háskólasamfélagsins. Þessi innlegg fjalla um þýðingu skýrslunnar fyrir Ísland. Í lokin verða umræður. Fyrri hluti málþingsins fer fram á ensku en seinni hlutinn verður á íslensku.

Aðalfyrirlesarinn Tom Shakespeare er þekktur fræðimaður á sviði fötlunarfræða og baráttumaður fyrir mannréttindum fatlaðs fólks. Hann hefur verið í samstarfi við íslenska fræðimenn á sviði fötlunarfræða um árabil og hefur komið til Íslands nokkrum sinnum og haldið fyrirlestra. Hann er hér á landi til að veita viðtöku heiðursdoktorsnafnbót við Háskóla Íslands. Tom er einn af höfundum og ritstjórum alþjóðaskýrslunnar um fötlun (World Report on Disability) sem kom út í júní 2011.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta