Hoppa yfir valmynd
12. mars 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Vinnandi vegur

Aðgerðir til að tryggja allt að 1.500 atvinnuleitendum störf og starfstengd úrræði. Sérstök áhersla er lögð á hvata og úrræði fyrir langtímaatvinnulausa.

vinnandi vegur
vinnandi vegur

Svokölluð atvinnumessa var haldin í Laugardalshöll 8. mars sl. og hófst þar með framkvæmd aðgerða,  sem eiga að tryggja allt að 1500 atvinnuleitendum störf og starfstengd úrræði. Sérstök áhersla er lögð á langtímaatvinnulausa í þessu átaki.  Slíkar atvinnumessur munu einnig fara fram nokkru síðar í Reykjanesbæ og á Akureyri. Á messunni voru haldin stutt málþing um margvísleg efni og tók Katrín Jakobsdóttir þátt í umræðum um menntamál og atvinnu ásamt Bryndísi Hlöðversdóttur, Halldóri Grönvold og Runólfi Ágústssyni.

Samráðshópur stjórnvalda, stjórnmálaflokka og aðila vinnumarkaðarins um menntun og vinnumarkaðsúrræði skilaði 31. mars 2011 tillögum sínum til ríkisstjórnarinnar um átak til þriggja ára. Tillögur hópsins báru yfirskriftina Í nám – til vinnu.

Tillögurnar og fjármögnun þeirra voru til umfjöllunar í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í maí 2011 og varð samkomulag um það efni, sem fram kom í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 5. maí 2011.

Nú er verið að hrinda í framkvæmd aðgerðum sem eiga að tryggja allt að 1.500 atvinnuleitendum störf og starfstengd úrræði. Sérstök áhersla er lögð á hvata og úrræði fyrir langtímaatvinnulausa. Átakið hefur hlotið nafnið VINNANDI VEGUR.

Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg munu beita sér fyrir því að sveitarfélögin skapi a.m.k. helming starfa eða starfstengdra úrræða innan verkefnisins, alls 750 störf. Áætlað er að fyrirtæki á almennum vinnumarkaði munu skapa hinn helminginn.

Átakið tekur til allra atvinnuleitenda með sérstakri áherslu á þá einstaklinga sem hafa verið án vinnu lengur en 12 mánuði.

Almennt gildir um átakið

  1. Ráðningartímabil átaksins er stutt og afmarkað og stendur frá 15. febrúar til 31. maí.
  2. Atvinnurekandi getur fengið sérstakan styrk til ráðningu atvinnuleitanda ef með slíkri ráðningu sé sannarlega verið að fjölga starfsfólki.
  3. Tímalengd styrks er óháð þeim tíma sem atvinnuleitandi getur fengið greiddar atvinnuleysisbætur. Þannig getur atvinnurekandi fengið styrk vegna ráðningar einstaklings af atvinnuleysisskrá svo fremi sem viðkomandi hafi verið tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins þegar hann var ráðinn.
  4. Sé ráðið í hlutastarf greiðist styrkur eftir starfshlutfalli.
  5. Skilyrði fyrir greiðslu styrks á grundvelli samnings eru eftirfarandi:
  • Að ráðning viðkomandi atvinnuleitanda feli í sér aukningu á starfsmannafjölda hlutaðeigandi fyrirtækis eða stofnunar.
  • Að fyrirtæki hafi að minnsta kosti einn starfsmann á launaskrá.
  • Að fyrirtæki hafi ekki, síðastliðna sex mánuði, sagt lausum stöðugildum sem fyrirhugað er að ráða atvinnuleitendur til að gegna á grundvelli ákvæðisins.
  • Að ráðning viðkomandi atvinnuleitanda til fyrirtækis feli ekki í sér verulega röskun á samkeppni innan atvinnugreinarinnar á því svæði sem um ræðir hverju sinni.
  • Að staðfesting á launagreiðslu til viðkomandi atvinnuleitanda fylgi með reikningi fyrirtækis eða stofnunar til Vinnumálastofnunar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta