Stefnt að millilandaflugi um Akureyrarflugvöll allt árið um kring
Forsvarsmenn flugklasans AIR 66N hafa háleitar hugmyndir um fjölgun ferðamanna á Norðurlandi. Stefnan hefur verið sett á að koma á reglulegu millilandaflugi um Akureyrarflugvöll allt árið um kring með tilheyrandi tækifærum fyrir ferðaþjónustuaðila á Norðurlandi.
Framundan er vinna við að markaðssetja og kynna Akureyrarflugvöll sem nýjan áfangastað fyrir millilandaflug. Markmiðið er að fjölga erlendum ferðamönnum á Norðurlandi árið um kring og ekki síður að lengja dvöl þeirra á svæðinu. Í tengslum við flugklasann er mikil áhersla lögð á nýsköpun og vöruþróun í þjónustu við ferðamenn á Norðurlandi auk markvissrar kynningar á þeirri þjónustu sem nú þegar er til staðar.
Flugklasinn er samstarfsverkefni fyrirtækja í ferðaþjónustu, sveitarfélaga, stofnana og annarra hagsmunaaðila. Verkefnið hóf sig til flugs fyrir um ári síðan með stuðningi Isavia, Akureyrarbæjar, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Markaðsstofu Norðurlands og atvinnuþróunarfélaga á svæðinu.