Afhending trúnaðarbréfs í Kanada
Þann 8. mars s.l. afhenti Þórður Ægir Óskarsson David Johnston, landstjóra Kanada, trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands í Kanada.
Á fundi sendiherrans með landstjóranum lofaði Johnston það mikilvæga framlag, sem íslenskir landnemar og afkomendur þeirra hefðu lagt af mörkum til uppbyggingar kanadísks samfélags. Góð tengsl Íslands og Kanada mætti raunar rekja þúsund ár aftur í tímann þegar fyrstu Íslendingarnir námu þar land. Í dag væru Kanadamenn af íslensku bergi brotnir mikilvægir hlekkir í hinu fjölþjóðlega kanadíska samfélagi. Landstjórinn lagði einnig ríka áherslu á sameiginleg gildi og sameiginlega hagsmuni ríkjanna. Þetta væri staðfest í fjölþjóðasamningum sem ríkin ættu aðild að og nefndi hann þar sérstaklega samninginn innan Norðurskautsráðsins um leit og björgun, fríverslunarsamning Kanada og EFTA sem og mannréttindamál.