Fundur um spilahegðun og mögulegar aðgerðir stjórnvalda til að draga úr spilafíkn
Innanríkisráðuneytið gengst fyrir hádegisfundi um spilafíkn og happdrættismál þar sem einnig verður rætt til hvaða aðgerða unnt er að grípa til að sporna við spilafíkn. Fundurinn verður haldinn í Iðnó í Reykjavík miðvikudaginn 21. mars klukkan 12 til 13.
Tilgangur fundarins er annars vegar að greina frá nýrri rannsókn um spilahegðun og spilavanda Íslendinga og hins vegar að fjalla um hvaða aðgerðir geta dregið úr spilafíkn.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra flytur ávarp í upphafi fundar en fastanefnd á sviði happdrættismála, sem hefur m.a. það hlutverk að fylgjast með framvindu happdrættismála og gera tillögur til ráðherra um úrbætur í happdrættismálum, hefur látið vinna rannsókn um spilahegðun fullorðinna Íslendinga.
Dr. Daníel Þór Ólason, dósent við sálfræðideild Háskóla Íslands, greinir frá niðurstöðum áðurnefndrar rannsóknar um spilahegðun Íslendinga en slíkar rannsóknir hafa verið unnar þrisvar sinnum á síðustu árum.
Kristófer Már Kristinsson fjallar um aðgerðir sem hugsanlegt er að stjórnvöld geti gripið til í þeim tilgangi að draga úr áhættu spilafíknar.
Þeir sem hyggjast taka þátt í fundinum eru beðnir að skrá sig á netfangið [email protected] eigi síðar en á hádegi þriðjudaginn 20. mars. Unnt verður að kaupa léttan hádegisverð á fundinum.