Hönnunarsýningin Norðaustan 10 opnuð á Húsavík
Norðaustan 10 er vöruþróunarverkefni sem unnið hefur verið á Norðaustur- og Austurlandi í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands, „Úti á Túni - menningarmiðstöð" á Húsavík og „Þorpið - skapandi samfélag" á Egilsstöðum. Í verkefninu voru nokkrir vöruhönnuðir fengnir til þess að vinna að vöruhönnun í samstarfi við framleiðslufyrirtæki á svæðunum þar sem útgangspunkturinn er framleiðslugeta og tækjabúnaður sem fyrirtækin hafa yfir að ráða ásamt þeirri þekkingu sem starfsmenn þeirra búa yfir. Jafnframt er litið til þess efnisvals sem hægt er að nálgast á svæðinu eða er einkennandi fyrir svæðið
Á Húsavík voru það hönnuðirnir Róshildur Jónsdóttir, Brynhildur Guðlaugsdóttir, Snæbjörn Stefánsson og Stefán Pétur Sólveigarson sem unnu að verkefninu í samstarfi við fyrirtækin Norðurvík, Víkurraf, CP Pökkunarfélag, Víkurverk og Ísnet. Verkefnið var unnið samhliða á Austurlandi í samstarfi við Þorpið - skapandi samfélag.
Þessa dagana er sýning með afrakstri og afurðum úr samstarfsverkefninu Norðaustan 10 í Safnahúsinu á Húsavík. Sýningin verður síðan flutt suður yfir heiðar í tengslum við HönnunarMars í Reykjavík dagana 22. - 25. mars 2012.