Hoppa yfir valmynd
16. mars 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Á fjórða hundrað sóttu ráðstefnu Evrópuárs um virkni aldraðra og samstöðu kynslóða

Gestir á ráðstefnu Evrópuársins
Gestir á ráðstefnu Evrópuársins

Evrópusambandið tileinkar árið 2012 öldruðum; virkni á efri árum og samstöðu milli kynslóða (e. European Year for Active Ageing and Solidarity between Generations). Ráðstefnan var liður í þátttöku Íslands í verkefnum og viðburðum sem tengjast Evrópuárinu 2012 og stóðu velferðarráðuneytið, Landssamband eldri borgara og Öldrunarráð Íslands sameiginlega að ráðstefnuhaldinu.

Framsögumenn komu víða við í erindum sínum en á ráðstefnunni tók til máls ungt fólk og ræddi málin út frá sjónarhóli yngri kynslóða og eldri borgarar frá sínum sjónarhóli. Einnig voru kynntar niðurstöður tveggja rannsókna, annars vegar á framlagi eldri borgara til samfélagsins og hins vegar á virkni og þátttöku eldri borgara í samfélaginu.

„Mér finnst það nú ekki alveg passa að eldra fólk sé ekki tæknivætt þar sem langafi minn til dæmis, sem er orðinn 88 ára, á gsm síma, tölvu og var að kaupa sér iPad spjaldtölvu fyrir ekki svo löngu. Hann er núna eins og unglingur á fullu í iPadinum, alltaf að fá sér eitthvað nýtt App sem eru forrit í spjaldtölvuna“ sagði Matthildur María Guðmundsdóttir háskólanemi og fulltrúi ungu kynslóðarinnar sem tók til máls á ráðstefnunni. „Svo á ég ömmu sem er 76 ára og er á kafi í félagsmálum. Hún vinnur allt á tölvur, er á fullu í tölvupósti, leitar að upplýsingum á Netinu, er með MSN og hún hefur ekki tíma fyrir Facebook því það er allt of mikið að gera hjá henni.“

Kórsöngur í undirbúningiÞað var létt yfir Guðrúnu Pétursdóttur, framkvæmdastjóra Stofnunar Sæmundar fróða, þegar hún ræddi að hafa verið boðið að tala á ráðstefnu sem fulltrúi eldri kynslóðarinnar: „Þetta eru tímamót! Hingað til hef ég litið í spegil og séð gráu hárin, en aldrei sett þau í samband við neitt – nema að það er ekki eins dýrt að fara í hárgreiðslu eftir að strípurnar komu af sjálfu sér. Ég hef hreinlega ekki tengt þær við aldur! Kannski er einn galdur við að brúa kynslóðabil einmitt í þessu fólginn – að sjá ekki bilið.“

Séra Bernharður Guðmundsson velti fyrir sér hvað það er að vera virkur: „Ég er ekki viss um að skilgreining okkar hinna eldri rími alveg við virknishugtak miðaldra fólksins. Þá á yfirleitt að drífa í hlutunum, fara þangað, vera þar sem fjörið er. Vissulega vilja mörg okkar drífa í hlutunum, vera virk – en á okkar eigin forsendum, í okkar eigin takti. Það er virkni að njóta kyrrðar, njóta útsýnis, horfa á Esjuna síbreytilega, njóta samveru við gamla vini og þó sérstaklega við fjölskylduna. Njóta lífsins, minninganna...“

Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur flutti í lok ráðstefnunnar erindi sem hann nefndi Við þurfum á hvert öðru að halda og sagði meðal annars: „Stundum láta Íslendingar eins og börn og gamalt fólk og aðrir þeir sem ekki eru virkir á vinnumarkaði eins og kallað er, séu fremur vandamál en verðmæti; fólk sem koma þurfi fyrir einhvers staðar og með einhverjum ráðum, þar sem það er ekki fyrir vinnandi fólki. Stundum virka almestu dugnaðarforkarnir á mig eins og fólk sem er beinlínis á harðahlaupum undan börnunum sínum og foreldrum sínum og sínu eigin lífi, þeir flýja inn í vinnuna sína til þess að þurfa ekki að takast á við eigið líf, þurfa ekki að hitta sjálfa sig.“

Ráðstefnan þótti takast einkar vel og fóru gestir heim ánægðir eftir uppbyggilegar samræður, kaffisopa og nokkrar kleinur.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta