Hoppa yfir valmynd
16. mars 2012 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráherra heimsækir skuldastýringarmiðstöð OECD í S-Afríku

Á meðfylgjandi mynd má sjá utanríkisráherra og Maríu Erlu Marelsdóttur, sviðsstjóra þróunarsamvinnusviðs utanríkisráðuneytisins, ásamt fulltrúum skuldastýringarmiðstöðvar OECD í Suður-Afríku.
Össur Skarphéðinsson og María Erla Marelsdóttir, sviðsstjóri þróunarsamvinnusviðs utanríkisráðuneytisins, ásamt fulltrúum skuldastýringarmiðstöðvar OECD í Suður-Afríku.

Í dag heimsótti Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra miðstöð Efnahags og framfarastofnunarinnar, OECD, um skuldastýringu Afríkuríkja í Jóhannesarborg í Suður Afríku.

Ísland er einn helsti styrktaraðili miðstöðvarinnar sem starfar með Afríkuríkjum við að stýra betur opinberum fjármálum sínum og koma á fót skilvirkum fjármálamörkuðum, m.a. með útgáfu skuldabréfa.

Miðstöðin vinnur að því að efla þekkingu í stefnumótun og áætlanagerð í ríkisfjármálum og bæta rekstur seðlabanka, kauphalla og fjármálaráðuneyta. Markmiðið er m.a. að gera fólki og fyrirtækjum kleift að fjárfesta í skuldabréfum og auka þannig sparnað.

Meðal þess sem miðstöðinni er ætlað, er að þjálfa starfsfólk í fjármálaráðuneytum og seðlabönkum og veita þeim hvatningu sem ná bestum árangri. Eins verða settir upp gagnagrunnar um skuldastýringu þar sem ríki geta borið sig saman og lært bestu aðferðirnar hvert af öðru.

Skuldastýringarmiðstöðinni var komið á fót með viðhöfn á ársfundi OECD í París í fyrra í samstarfi Suður Afríku og OECD. Miðstöðin er sú fyrsta utan aðildarríkja stofnunarinnar og sú fyrsta í Afríku. Hún er hýst hjá þróunarbanka Suður Afríku í samstarfi við fjármálaráðuneyti landsins.

Í tilefni af heimsókninni átti utanríkisráðherra fund með Paul Baloyi forstjóra Þróunarbankans sem útskýrði mikilvægi skuldastýringar sem forsendu uppbyggingar í Afríku og lýsti helstu forgangsverkefnum í uppbyggingu innviða í Suður Afríku og nágrannaríkjunum.

Á meðfylgjandi mynd má sjá utanríkisráherra og Maríu Erlu Marelsdóttur, sviðsstjóra þróunarsamvinnusviðs utanríkisráðuneytisins, ásamt fulltrúum skuldastýringarmiðstöðvarinnar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta