Samningsafstaða Íslands í 7 köflum birt
Samningsafstaða Íslands varðandi samkeppnismál, orkumál, hagtölur, félags- og vinnumál, utanríkis-, -öryggis- og varnarmál, neytenda- og heilsuvernd, og fjárhagslegt eftirlit í samningaviðræðum Íslands og Evrópusambandsins hefur verið birt á heimasíðu viðræðnanna esb.utn.is. Var hún send framkvæmdastjórn ESB og aðildarríkjum sambandsins eftir að um hana hafði verið fjallað í viðkomandi samningahópum, samninganefnd Íslands og utanríkismálanefnd Alþingis, og hún samþykkt í ráðherranefnd og ríkisstjórn. Búist er við því að viðræður hefjist í viðkomandi málaflokkum á fyrri hluta þessa árs. Flestir þessara kafla falla að fullu (kafli 8) eða að stærstum hluta (kaflar 15, 18, 19, 28, 31 og 32) undir EES-samninginn.
Í samningsafstöðu Íslands í kafla 8 um samkeppnismál kemur m.a. fram að Ísland hyggst viðhalda einkasölu ríkisins á áfengi og tóbaki í óbreyttri mynd eins og lögð er áhersla á í áliti meirihluta utanríkismálanefndar Alþingis.
Í samningsafstöðu Íslands í kafla kafla 15 um orkumál kemur m.a. fram að Ísland leggur áherslu á að aðild hafi ekki áhrif fyrirkomulag á Íslandi varðandi eignarhald á orkuauðlindum, og að Ísland hyggst uppfylla kröfu ESB um að viðhalda lágmarksbirgðum af olíu , m.a. með því að draga smám saman úr olíunotkun á sama tíma og núverandi byrgðum er haldið stöðugum.
Í samningsafstöðu Íslands í kafla 18 um hagtölur kemur m.a. fram að Hagstofa Íslands leggur nú þegar fram ítarlegar tölfræðilegar upplýsingar í samræmi við evrópskar verklagsreglur í hagskýrslugerð.
Í samningsafstöðu Íslands í kafla 19 um félagsmál og vinnumál kemur m.a. fram að við aðild fengi Ísland aðgang að félagsmálasjóði ESB, sem m.a. er ætlað að styðja aðgerðir til að draga úr atvinnuleysi, og að lágmarksreglur um réttindi launafólks og grunnreglur um jafnan rétt einstaklinganna sem þegar eru hluti af EES-samningnum takmarki ekki rétt þjóða til að skipuleggja sjálfar sína velferðarþjónustu.
Í samningsafstöðu Íslands í kafla 28 um neytenda- og heilsuvernd kemur m.a. fram að kaflinn fellur undir EES samninginn og aðild að ESB kallaði ekki á breytingar á íslenskum reglum á þessu sviði. Reglurnar takmarka ekki rétt þjóða til að skipuleggja sjálfar sína opinberu heilbrigðisþjónustu.
Í samningsafstöðu Íslands í kafla 31 um utanríkis-, öryggis- og varnarmál kemur m.a. fram að Ísland viðhaldi valdheimildum sínum á sviði öryggis- og varnarmála og að staða þess sem herlaust land verði óbreytt. Samkvæmt ákvæðum ESB-sáttmálans gengur sameiginlega öryggis- og varnarstefnan aldrei framar stefnu hvers ríkis í öryggis- og varnarmálum, og hvert aðildarríki ákveður hvort það taki þátt í samvinnu á sviði varnarmála eða friðargæsluverkefnum.
Í samningsafstöðu Íslands í kafla 32 um fjárhagslegt eftirlit kemur m.a. fram að gerðar verði sérstakar ráðstafanir vegna smæðar íslensku stjórnsýslunnar, sér í lagi að því er varðar fyrirkomulag innri endurskoðunar hjá smærri opinberum stofnunum þannig að kostnaður við aukið fjárhagslegt eftirlit verði innan eðlilegra marka.
Samningaviðræðurnar um aðild Íslands að Evrópusambandinu snúast um 33 kafla í regluverki ESB, auk kafla um stofnanir og annað. Alls hafa 11 samningskaflar verið opnaðir frá því að efnislegar aðildarviðræður hófust í júní á síðasta ári og er samningum þegar lokið um 8 þeirra.