Hoppa yfir valmynd
21. mars 2012 Matvælaráðuneytið

Vorboðinn ljúfi! HönnunarMars verður um helgina

HönnunarMars 2012 logo
HönnunarMars 2012 logo

Lóan kom í fyrradag og Hönnunarmars verður um helgina – það fer ekki á milli mála að vorið er alveg að bresta á! Hönnunarmars fer nú fram í fjórða skiptið dagana 22.-25. mars og eins og jafnan er dagskráin barmafull af fjölbreyttum og spennandi viðburðum af ýmsu tagi.

Allt um HönnunarMars  

Á fyrirlestradegi HönnunarMars, stíga fjórir framsæknir hönnuðir á svið í Gamla Bíó. Meginþema fyrirlestradagsins er samstarf - mikilvægi þess að sækja sér þekkingu úr hinum ýmsu áttum og deila sérþekkingu milli fagsviða.

Meðal annara dagskrárliða er sýning húsgagnaframleiðenda í Víkinni Sjóminjasafni í Grandagarði. Íslenskir framleiðendur vilja koma á framfæri nýrri íslenskri framleiðslu þar sem ígrunduð hönnun og frábært handbragð haldast í hendur. Samstarf íslenskra framleiðenda og hönnuða stendur á gömlum merg og er enn að geta af sér ný og sífellt betri húsgögn og innréttingar.

Þá verður sýning á afrakstri háskólanámskeiðsins „Vistvæn nýsköpun matvæla“ verður haldin í Hönnunar- og arkitektúrsdeild Listaháskóla Íslands. Sýningin er haldin í tengslum við nemendakeppnina EcoTrophelia Iceland 2012 um titilinn ljúffengasta, frumlegasta og vistvænasta matvaran 2012.   

Hönnun á Íslandi er ekki ný af nálinni en gríðarlegur árangur og vitundarvakning hefur átt sér stað á undanförnum árum. HönnunarMarsinn spannar vítt svið, allt frá helstu hönnuðum þjóðarinnar sem sýna hvað í þeim býr, til nýútskrifaðra hönnuða sem stíga sín fyrstu skref. Á HönnunarMars er hönnun kynnt sem atvinnugrein sem byggir á traustum grunni og gegnir veigamiklu hlutverki í samtímanum.

Aðferðafræði hönnunar býr yfir einstökum tækifærum til sköpunar og endursköpunar. HönnunarMarsinn örvar, hvetur og ýtir undir sköpun því að þar mætast hönnuðir, fyrirtæki, framleiðendur og kaupendur; nýir möguleikar og tækifæri verða til.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta