Hoppa yfir valmynd
22. mars 2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Fæðuöryggi í forgrunni á alþjóðlegum degi vatnsins

Alþjóðlegur dagur vatnsins er í dag.
Alþjóðlegur dagur vatnsins er í dag.

Alþjóðlegur dagur vatnsins er í dag. Að þessu sinni beinist athyglin meðal annars að fæðuöryggi og vatnsskorti en aukin fæðuþörf vegna aukins mannfjölda hefur vaxandi álag á vatnsauðlindum jarðar til muna.

Íslendingar búa við miklar auðlindir þar sem vatnið er annars vegar. Þannig hefur Hagfræðistofnun Háskóla Íslands reiknað út að Ísland hefur aðgang að 532 þúsundum rúmmetrum af ferskvatni á hvern íbúa á meðan Danir hafa einungis aðgang að 3 þúsundum rúmmetrum af ferskvatni á hvern íbúa. Sú staðreynd að við Íslendingar eigum slíkar auðlindir hefur leitt til þess að við notum meira vatn en nokkur önnur þjóð, eða 269 rúmmetra á mann á ári, sem er nærri tvöfalt meira magn en hjá nágrannaþjóðum okkar í Evrópu.

Rannsóknir sýna að hver einstaklingur drekkur frá tveimur og upp í fjóra lítra af vatni daglega. Raunar er mesti hluti vatnsins sem við „drekkum“ í fæðunni sem við neytum – þannig fara um 15.000 lítrar af vatni í að framleiða eitt kíló af nautakjöti á meðan aðeins þarf um 1.500 lítra af vatni til að framleiða kíló af hveiti.

Nú búa milljarðar fólks við stöðugt hungur og vatnsauðlindir eru af skornum skammti. Eins og dæmið hér að ofan sýnir er fæðuframleiðsla og vatnsnotkun nátengd. Þetta kallar á ýmis konar aðgerðir og öll getum við lagt lóð á vogarskálarnar í því sambandi, s.s. með því að:

  • neyta hollra og sjálfbærra matvara,
  • neyta matar sem krefst ekki mikils vatns við framleiðslu,
  • draga úr sóun matar en 30% þess matar sem framleiddur er í heiminum eru aldrei borðuð og vatnið sem hefur verið  notað við framleiðslu þeirra fer því til spillis.

Hægt er að grípa til aðgerða á öllum stigum fæðukeðjunnar, frá framleiðendum til neytenda, til að spara vatn og þannig tryggja mat fyrir alla. Það þýðir að allir þurfa að líta í eigin barm, velta eigin vatnsnotkun fyrir sér og skoða hvernig þeir geta breytt matarvenjum sínum. 

Alþjóðlegur dagur vatnsins - heimasíða

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta