HönnunarMars 2012 er hafinn
HönnunarMars hófst með fyrirlestradegi á vegum Hönnunarmiðstöðvar Íslands í Gamla bíói og síðan taka við fjölmargar sýningar, fyrirlestrar og viðburðir af ýmsu tagi t.o.m. sunnudagsins 25. mars nk.
Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra ávarpaði gesti við opnun HönnunarMars og sagði í lok ávarps síns: „Er hægt að hanna nýjan og betri heim? Er það ekki ein mest knýjandi spurning samtímans? Spurning sem reyndar er ætluð okkur öllum, hönnuðum, stjórnmálamönnum, þjóðum heims.
Öðrum þræði er Hönnunarmars, sem nú er að hefjast, eins konar símenntun, því að í fáum greinum eru áhrif frá verkum, gjörðum og hugmyndum annarra jafnmikil uppspretta frjórrar hugsunar og einmitt í hönnunargeiranum. Þessi samkoma hér í dag er skýrt dæmi um einmitt þessa hlið á þessari uppskeru hátíð íslenskra hönnuða og það er gaman fyrir mig sem ráðherra mennta- og menningarmála að geta komið að viðburði sem er jafn þverfaglegur í hugsun og hér er raunin.
Á undanförnum misserum og árum hafa augu margra opnast fyrir mikilvægi skapandi og gagnrýnnar hugsunar en áherslu á þessa mikilvægu þætti má finna í nýlegum námskrám sem lagðar eru til grundvallar í leik- grunn og framhaldsskólum og nú er verið að innleiða. Þar er kjarni menntastefnunnar settur fram í sex grunnþáttum: læsi, sjálfbærni, lýðræði, jafnrétti, heilbrigði og velferð og sköpun. Og segja má að um alla þessa þætti þurfi hönnuðurinn að vera meðvitaður í vinnu sinni þegar hann tekst á við verkefni sín. Með þessi atriði að leiðarljósi er mögulega hægt að hanna betri heim – hanna sig í gegnum lífið“.