Í Friðheimum rækta menn jöfnum höndum hesta og plómutómata!
Hjónin Knútur Rafn og Helena Hermundardóttir keyptu Friðheima í Reykholti árið 1995 og hafa síðan þá ekki setið auðum höndum. Það er reyndar spurning hvað það er mikill friður í Friðheimum því auk þess að stunda stórtæka ræktun á tómötum starfrækja þau hestamiðstöð og ferðaþjónustu henni tengdri.
Gróðurhúsin á Friðheimum þekja um 3000 fermetra og upphaflega ræktuðu þau jöfnum höndum tómata, paprikur og gúrkur. Síðustu 10 árin hafa þau einbeitt sér að tómötunum og í dag rækta þau þrjár tegundir af tómötum. Hefðbundna tómata, plómutómata og konfekttómata. Þau eru jafnframt einu garðyrkjubændurnir sem rækta plómutómata allt árið. Ræktunin á Friðheimum er vistvæn. Gróðurhúsin eru hituð upp með jarðhita og lífrænar varnir eru notaðar gegn meindýrum. Tómatarnir eru allir flokkaðir og pakkaðir á staðnum og merktir Friðheimum
Í hestamiðstöðinni er í boði reiðkennsla, stunduð hrossarækt og auk þess haldnar hestasýningar fyrir ferðamenn. Sýningarnar eru mjög vinsælar en á þeim er skeiðað yfir sögu íslenska hestsins og gangtegundir hans sýndar. Eftir sýninguna er ferðamönnum boðið inn í hesthús þar sem hægt er að komast í návígi við hrossin, taka myndir og spjalla við knapana. Og áhugasömum gefst einnig tækifæri til að skoða inn í gróðurhúsin og sjá hvernig tómatarækt gengur fyrir sig.