Skýrsla Ríkisendurskoðunar um Landbúnaðarháskólann
Ríkisendurskoðun birti í gær niðurstöður sinar á athugun á rekstri og starfsemi Landbúnaðarháskóla Íslands í skýrslunni „Fjármálastjórn landbúnaðarháskólans“, sjá vef Ríkisendurskoðunar.
Mennta- og menningarmálaráðuneyti gerir ekki athugasemdir við skýrsluna en getur þó ekki tekið undir þá túlkun á svörum skólans og ráðuneytisins, sem fram kemur í samantekt á heimasíðu Ríkisendurskoðunar, svo hljóðandi: „Í skýrslunni kemur fram að á undanförnum árum hefur nemendum og námsbrautum við Landbúnaðarháskólann fjölgað verulega.
Stjórnendur og mennta- og menningarmálaráðuneytið telja að fjárhagsvanda skólans megi fyrst og fremst rekja til þess að framlög ríkisins hafa ekki haldið í við þessa þróun. Frá árinu 2009 hefur eftirlit með fjármálum skólans verið hert en stjórnendum hefur engu að síður ekki tekist að láta enda ná saman í rekstrinum.“ Að mati ráðuneytisins hefur á undanförnum árum orðið mikilvægur viðsnúningur í rekstri skólans en honum fylgdi fjárhagsvandi allt frá sameiningu stofnana, sem síðar urðu að Landbúnaðarháskóla Íslands og frá flutningi á málefnum skólans milli ráðuneyta árið 2008.
Ráðuneytið hefur ásamt stjórn og forsvarsmönnum skólans unnið að því að finna rekstrinum eðlilegan rekstarfarveg og telur að það muni takast á fáum árum. Að öðru leyti er vísað til viðbragða ráðuneytisins í skýrslunni.