Matarsmiðjan á Flúðum er vítamínsprauta fyrir matvælaframleiðslu á Suðurlandi
Á Flúðum rekur Matís í samstarfi við góða aðila sérstaka matarsmiðju en þar er áhugasömum matvælaframleiðendum hjálpað til að láta drauma um framleiðsluvörur og atvinnunýsköpun verða að veruleika. Notendur fá kennslu á tækin og frjálsan aðgang til framleiðslu á þeim vörum sem gerlegt er m.t.t. aðstöðu og tækjabúnaðar. Matarsmiðjan er mjög vel tækjum búin og þar er fyrsta flokks aðstaða sem hefur öll tilskilin leyfi heilbrigðisyfirvalda.
Um 80% af allri grænmetisframleiðslu landsins er á Suðurlandi og þar eru miklir þróunar- og nýsköpunarmöguleikar í þessari framleiðslu. Má t.d. nefna nýtingu á afurðum sem falla til í hefðbundinni grænmetisframleiðslu og á grænmeti sem ekki selst, til að mynda í framleiðslutoppum og þegar lengra kemur fram á haustið. Í matarsmiðjunni á Flúðum er öll aðstaða og sérfræðiþekking til að þróa vörur sem byggjast á geymsluaðferðum á grænmeti, svo sem frystingu, þurrkun, niðursuðu og svo framvegis. Með öðrum orðum fullvinnslu á grænmeti.
Auk þess að vinna að ýmsum garðyrkjutengdum verkefnum aðstoðar matarsmiðjan á Flúðum alla þá aðila sem vilja þróa framleiðslu á matvælum til beinnar sölu heima í héraði. Tækifærin eru mörg á Suðurlandi enda matvælaframleiðsla öflug á svæðinu auk þess sem Suðurland er eitt af fjölsóttustu ferðamannasvæðum landsins.
Jafnframt stendur matarsmiðjan fyrir námskeiðahaldi og starfsmenntun meðal grænmetisframleiðenda og eflir með því móti nýliðun í greininni.
Auk matarsmiðjunnar á Flúðum rekur Matís matarsmiðju á Höfn í Hornafirði og á Egilsstöðum gengur starfsstöð Matís undir nafninu Matvælamiðstöð Austurlands.
Auk Matís eru það sveitarfélögin í uppsveitum Árnessýslu sem standa að matarsmiðjunni á Flúðum auk Atvinnuþróunarfélags Suðurlands og Háskólafélags Suðurlands að verkefninu.