Frumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um stjórn fiskveiða
Ríkisstjórn Íslands samþykkti á fundi sínum sl. föstudag frumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um stjórn fiskveiða sem og frumvarp um veiðigjöld. Einnig hefur málið verið kynnt á vinnslustigi fyrir þingflokkum beggja stjórnarflokka og var í gærkvöldi og í morgun kynnt helstu hagsmunaaðilum. Þingflokkar stjórnarflokkanna samþykktu málin til framlagningar í dag. Helstu atriði frumvarpanna eru samandregin hér en annars vísast til ítarlegrar greinargerða er fylgja þeim.
1. Megingrein frumvarps um stjórn fiskveiða er 1. gr. þess en hún tryggir að nytjastofnar við Ísland séu ævarandi sameign þjóðarinnar og að ríkið fyrir hönd þjóðarinnar ráðstafi veiðheimildum með tiltekin markmið að leiðarljósi. Þetta orðalag tekur mið af tillögu Stjórnlagaráðs frá 2011 að frumvarpi til nýrrar stjórnarskrár, en sú tillaga á sér rætur í umræðu um auðlindamál á síðustu árum. Þannig var lagt til í skýrslu Auðlindanefndar frá árinu 2000 að tekið yrði upp nýtt form eignarréttar, svonefndur þjóðareignarréttur, „til hliðar við hinn hefðbundna séreignarrétt einstaklinga og lögaðila“. Þessi tillaga hefur legið til grundvallar ýmsum þeim tillögum sem lagðar hafa verið fram á undanförnum áratug um auðlindaákvæði í stjórnarskrá.
2. Meginmarkmið frumvarpsins eru fimm talsins:
a. Að stuðla að verndun og sjálfbærri nýtingu fiskistofna við Ísland.
b. Að stuðla að farsælli samfélagsþróun með hagsmuni komandi kynslóða aðleiðarljósi.
c. Að treysta atvinnu og byggð í landinu.
d. Að hámarka þjóðhagslegan virðisauka af sjávarauðlindinni og tryggja þjóðinni eðlilega auðlindarentu.
e. Að sjávarútvegurinn sé arðsamur og búi við hagstætt og stöðugt rekstrarumhverfi.
Með frumvarpinu er reynt að leita jafnvægis milli þessara sjónarmiða en sum þeirra togast á svo sem eins og byggðarsjónarmið og hrein arðsemissjónarmið. Grundvallarsjónarmiðið um sjáfbæra nýtingu auðlindarinnar er óumdeilt.
3. Frumvarpið gerir ráð fyrir að núverandi handhafar aflaheimilda fái stærstan hluta aflaheimilda í þeim tegundum sem hafa verið settar í aflahlutdeild (kvótasettar) í formi nýtingarleyfa sem ákveðnar kvaðir eru á. Nýtingarleyfin eru í fullu samræmi við tillögur þingmannanefndarinnar sem og ráðherranefndarinnar um ráðstöfun aflaheimilda. Mótttaka nýtingarleyfanna felur í sér ígildi samkomulags milli handahafanna og ríkisins.
4. Aflahlutdeildum er skipt í tvo flokka:
a. flokk 1; nýtingarleyfi til útgerða og
b. flokk 2; til ríkisins. Til verður nýr leigupottur ríkisins sem selur aflamark (leigir)
reglubundið á markaði, kvótaþingi, yfir fiskveiðiárið. Markmiðið er að til verði virkur markaður með eðlilegri verðmyndun og nægjanlegum sveigjanleika.
5. Framsal aflahlutdeilda er bundið við gildistíma (20 ár) upphafsnýtingarleyfa og takmarkað með skýrum ákvæðum. Framlengist nýtingarleyfi breytast þau í „hrein“ nýtingarleyfi, þ.e. framsal þeirra er ekki heimilt. Við framsal aflahlutdeildar, á 20 ára tímabilinu, nýtur ríkið 3% heimfallsréttar af hlutdeildinni, sem er ráðstafað í flokk 2.
6. Allt framsal aflamarks (leiga - leyfileg veiði innan ársins) fer fram á opinberu kvótaþingi sem verður endurvakið. Gildir það bæði um það aflamark sem ríkið leigir út (flokkur 2) og um framsal útgerða (flokkur 1) á aflamarki. Framsal útgerða á aflamarki eru settar verulegar skorður með því að skilyrða framsalið við áunna veiðireynslu. Með þessu er tryggt að handhafi nýtingarleyfis stundi f.o.f. fiskveiðar á grunni þess í stað þess að fénýta það í stórum stíl með öðrum hætti.
7. Í flokk 2 - strandveiðar, útleigu á kvótaþingi, línuívilnun, rækju- og skelbætur og byggðakvóta - er gert ráð fyrir 32 þúsund þorskígildistonnum. Til samanburðar var um 11 þúsund þorskígildistonnum úthlutað í þessar hliðarráðstafanir fiskveiðiárið 2007/2008. Aukningin er því umtalsverð og munu hátt í 20 þúsund þorskígildistonn fara á útleigu á kvótaþingi.
8. Heimilt verður að skilyrða hluta af aflaheimildum ríkisins til útleigu við ákveðin svæði sem standa veikt og/eða hafa glatað miklu af sínum heimildum. Svigrúm ríkisins til að mæta kröfum byggðarlaga, sem glatað hafa aflaheimildum og veikst að sama skapi, verður því verulega aukið.
9. Strandveiðar verða með óbreyttu sniði en stefnt verður að því að draga úr rækju- og skelbótum og byggðakvóta til þess að geta byrjað með eins stóran leigupott og mögulegt er.
Ef forsendur skapast til aukningar á aflahlutdeildum stækkar leigupotturinn ört.
10. Opnað verður á þann möguleika að veita nýliðum leyfi. Frá og með fiskveiðiárinu 2015-2016 er heimilt að ráðstafa tilteknu magni aflahlutdeilda sem ríkið hefur yfir að ráða samkvæmt flokki 2, til að stuðla að nýliðun með útgáfu nýrra nýtingarleyfa. Verða þá slík nýliðunarleyfi annað hvort boðin út eða úthlutun þeirra bundin svæðum sem hallað hefur á í atvinnu- og byggðalegu tilliti. Allir sem eignast aflahlutdeild eiga rétt á nýtingarsamningum. Til viðbótar við leigupott og strandveiðar opnar þetta kerfið verulega frá því sem var og mætir þannig vel þekktum mannréttinda- og jafnræðissjónarmiðum.
11. Veiðigjöld verða tvískipt, annars vegar grunngjald sem allir greiða 8 kr. fyrir þorskígildiskíló og hins vegar sérstakt veiðigjald, sem verður tengt áætlaðri rentu hvers árs og skilar þjóðinni réttmætri auðlindarentu. Sérstaka gjaldinu er skipt eftir afkomu bolfiskveiða annars vegar og uppsjávarveiða hins vegar og tekur það á rentu bæði í veiðum og vinnslu þótt það sé eingöngu lagt á veiðarnar. Grunngjaldið er hugsað til að standa undir stofnunum ríkisins við stjórn fiskveiða.
12. Sérstaka gjaldið mun skila ríkissjóði verulega auknum tekjum miðað við núverandi afkomu í sjávarútvegi sem er afar góð. Hið sérstaka gjald er mjög næmt fyrir afkomu greinarinnar og því sveiflast það í takt við gengi hennar. Veiði- og sérstaka veiðigjaldið mun renna óskipt í ríkissjóð. Áætlað er að veiðigjaldið skili ríkissjóði 18 til 20 milljörðum kr. árlega á næstu þremur árum en að frádregnum tekjum nú og áætlaðri lækkun tekjuskatts verði tekjuaukinn 11 til 13 mia. kr. á ári. Gert er ráð fyrir að bátar upp að 30 tonn verði undanþegnir sérstöku veiðigjaldi og bátar frá 30 – 100 tonn greiði helminginn af slíku gjaldi. Ákvæði um veiðigjöld eru sett fram í sjálfstæðu frumvarpi.
13. Tekjum af útleigu veiðiheimilda verður deilt með ríkissjóði, sveitarfélögum og markaðs- og þróunarsjóði fyrir sjávarútveginn (40%-40%-20%). Með stækkandi leigupotti aukast þessar tekjur. Þó er um að ræða umtalsvert lægri tekjur en veiðigjöldin skila, en ætla má að þær geti numið 2 ½ - 3 ½ milljarði í byrjun.
14. Lög um stjórn fiskveiða og veiðar utan landhelgi verða sameinuð í ný heildarlög og nokkrar breytingar gerðar á öðrum lögum (bandormur), svo sem lögum um umgengni við nytjastofna sjávar. Veigamesta breytingin felst í heimild Fiskistofu til að leggja á stjórnvaldssektir, vegna brota sem varða nýtingu auðlindarinnar, en fyrir því eru skilvirknis- og varnaðarástæður.
Það er sannfæring stjórnarflokkanna að með nýjum frumvörpum um stjórn fiskveiða og veiðigjöld sé lagður fram efniviður í sáttargjörð um sjávarútvegsmál sem allir eigi að geta unað vel við. Með þeim er deilum um eignarhald á auðlindinni lokið; um er að ræða ævarandi sameign þjóðarinnar sem greitt er gjald fyrir að nýta. Þjóðin nýtur sameiginlega góðs af auðlindarentunni og sjávarútveginum er tryggður stöðugt rekstrarumhverfi til langs tíma.