Hoppa yfir valmynd
28. mars 2012 Matvælaráðuneytið

Margrét Hólm Valsdóttir veit allt um hvað Mývetningum finnst um ferðaþjónustu

Hækkandi sól - Ein góð frétt á dag
Hækkandi sól - Ein góð frétt á dag

 

Margrétar Hólm Valsdóttur, nemandi við viðskiptadeild HA fékk á dögunum árleg verðlaun sem veitt eru fyrir framúrskarandi lokaverkefni um ferðamál sem unnið er af nemanda við háskóla hér á landi. Rannsóknarmiðstöð ferðamála hefur veg og vanda af verðlaununum ásamt Samtökum ferðaþjónustunnar.

Ritgerð Margrétar fjallar um viðhorf Mývetninga til ferðaþjónustu á svæðinu og er hún byggð á ítarlegri viðhorfskönnun.

Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að íbúar líta ferðaþjónustuna og uppbyggingu henni tengdri jákvæðum augum þó að vissulega sé hún ekki gallalaus. Neikvæðir þættir eins og árstíðabundin láglaunastörf, mengun, rusl og neikvæð umhverfisáhrif eru Mývetningum ofarlega í huga. Í þessum göllum felast einnig tækifæri, tækifæri sem Mývetningar eiga kost á að nýta sér ef rétt er haldið á  spöðum. Til að nýta þessi tækifæri leggur Margrét ríka áherslu á mikilvægi samvinnu ólíkra hagsmunaaðila í þróun, uppbyggingu og markaðssetningu sveitarinnar. Aðeins þannig verði hægt að gera ferðaþjónustu að öflugum heilsárvinnustað þar  sem  eftirsóknarvert er að starfa. Er samvinna og samstarf mikilvægt ekki síst í ljósi þess að í  niðurstöðum könnunarinnar kemur fram sterk vísbending um að beinir hagsmunir heimafólks hafi áhrif á viðhorf þess til ferðaþjónustu.

Í umsögn dómnefndar segir að þetta verkefni sé mikilvægt innlegg í umræðu sem lengi hefur verið við líði í íslenskri ferðaþjónustu og snýr að þolmörkum umhverfis og samfélaga gagnvart ferðaþjónustu og feðramennsku. Mikilvægi þess að skoða vandlega og skilja til hlítar vísbendingar um hvort greinin sé á rangri braut í sinni uppbyggingu eða þróunarstarfi verður seint ofmetið. Jákvætt viðhorf og væntingar heimafólks um ferðaþjónustu og gestakomur eru undirstöður öflugrar vöruþróunar og þar með jákvæðrar upplifunar af áfangastað. Spurningar um hvort tilvist ferðafólks á ákveðnum stað eða uppbygging ferðaþjónustu sé ásættanleg eða óásættanleg í augum heimafólks eru mikilvægar og þeim verður að svara. Með aðferðum þolmarkarannsókna, eins og þær hafa verið þróaðar hér á landi, er reynt að setja viðmið fyrir stefnumótun í ferðaþjónustu í anda sjálfbærrar þróunar. Þegar hugtak eins og þolmörk eru til skoðunar verður ferðamannastaður aldrei burðugri en viðkvæmasti þáttur hvers staðar, hvort sem það eru innviðir, umhverfi, ferðafólk eða heimafólk sjálft. Til þess að geta staðið að stefnumótun ferðamannastaða þarf því vissulega að skoða hvern fyrir sig, en til að upplýsa stefnumótun í ferðaþjónustu í heild sinni þarf að skoða landið allt og gera sér jafnframt grein fyrir að stöðug endurskoðun er nauðsynleg sem byggir á áframhaldi rannsókna.

Ritgerðina er hægt að skoða á Landsbóksafni eða gegnum Skemmuna (skemman.is), hér: http://skemman.is/item/view/1946/8941

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta