Frumvarp um lánasamning við Vaðlaheiðargöng hf.
Fjármálaráðherra, Oddný G. Harðardóttir, hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um heimild til að undirrita lánasamning við Vaðlaheiðargöng hf.
Kostnaður við gangaframkvæmdina er áætlaður um 8,7 ma.kr. án vsk. "Áhætta ríkisins er lítil miðað við þann mikla ávinning sem framkvæmdin kemur til með að skapa. " segir fjármálaráðherra meðal annars um frumvarpið.
Samkvæmt frumvarpinu skulu Vaðlaheiðargöng hf., eignir þess og tekjustreymi vera fullnægjandi tryggingar fyrir láninu.
Vaðlaheiðargöng eru á samgönguáætlun þeirri sem innanríkisráðherra mælti nýverið fyrir á Alþingi. Verði frumvarp þetta ekki að lögum mun ríkissjóður því kosta Vaðlaheiðargöng að fullu þegar að þeim kemur á samgönguáætlun. Með því að vinna með heimamönnum að framgangi þessa verkefnis í sérstöku félagi í stað þess að ríkissjóður kosti framkvæmdina að fullu þegar að henni kemur í samgönguáætlun er ríkið að ná fram miklum ávinningi :
- Í fyrsta lagi fellur kostnaðurinn ekki á ríkissjóð gangi áætlanir eftir. Jafnvel þótt forsendur raungerist með mun verri hætti en gert er ráð fyrir myndi einungis hluti kostnaðarins lenda á ríkissjóði samanborið við allan kostnað ef göngin yrðu fjármögnuð með hefðbundnum hætti á samgönguáætlun. Ástæðan liggur í veggjöldunum sem félagið mun innheimta.
- Í öðru lagi gerir þessi aðferð við fjármögnun ríkinu kleift að ráðast í framkvæmdir við aðstæður sem ríkissjóður hefði að öðrum kosti ekki tækifæri til að ráðast í. Ávinningur af framkvæmd sem þessari er veruleg innspýting í hagkerfið, sérstaklega þegar atvinnuástand er ekki með besta móti.
- Í þriðja lagi stuðlar framkvæmdin að samþættingu atvinnulífs og byggða á Eyjafjarðarsvæðinu og í Þingeyjasýslum og því að svæðið verði eitt atvinnu og búsvæði. Hér er um mikið hagsmunamál að ræða fyrir heimamenn með tilliti til atvinnuuppbyggingar á svæðinu m.a. í formi orkuiðnaðar og orkufreks iðnaðar á komandi árum.
- Í fjórða lagi er áætlað að ríkið fái 517 m.kr. í beinar tekjur af framkvæmdinni í formi aukinna skatttekna og sveitarfélög um 366 m.kr. Reikna má með slíkum tekjum sem hreinni viðbót nú þegar slakinn í hagkerfinu er mikill og lítilla eða engra ruðningsáhrifa gætir.
„Þegar vegin eru saman áhætta ríkisins af umræddri lánveitingu við þau þjóðhagslegu og samfélagslegu atriði sem fjallað er um hér að framan er ljóst að áhætta ríkisins er lítil miðað við þann mikla ávinning sem framkvæmdin kemur til með að skapa.“ segir Oddný G. Harðardóttir, fjármálaráðherra um frumvarpið.
Áhyggjuraddir hafa heyrst um að áhættan við framkvæmdina og fyrirhugaða lánveitingu sé öll ríkisins. Í því sambandi skal bent á að bæði í greinargerð IFS Ráðgjafar ehf. og í umsögn Ríkisábyrgðasjóðs er talið að helsta áhætta ríkissjóðs felist í því hvernig ástand á lánamörkuðum verði árið 2018 þegar endurfjármagna þarf lán ríkissjóðs á markaði.
Til að lágmarka þessa áhættu bendir Ríkisábyrgðasjóður á að í ljósi þess að vaxtastig sé í sögulegu lágmarki væri skynsamlegt að tryggja langtímafjármögnunina strax. Ljóst er að verði frumvarpið að lögum mun fjármálaráðuneytið fjármagna heildarfjárhæðina strax á markaði og endurlána Vaðlaheiðargöngum hf. Komi til þess að erfiðlega reynist að leita fjármögnunar á markaði á árinu 2018, eins og fyrirhugað er, hefur ríkissjóður því nægt svigrúm til að framlengja lán sitt til Vaðlaheiðarganga hf. án þess að ríkið verði fyrir fjárhagslegu tjóni.