Hoppa yfir valmynd
3. apríl 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Það er ekki brostinn á landflótti

Skýrsla um fólksflutninga til og frá Íslandi 1961-2011 með áherslu á flutninga á samdráttarskeiðum hefur verið unnin fyrir velferðarráðuneytið.

Vegna umræðu um mikla flutninga fólks frá Íslandi eftir hrun bað Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra Ólöfu Garðarsdóttur, prófessor við menntavísindasvið Háskóla Íslands, að vinna skýrslu um fólksflutninga á liðnum árum og áratugum og skoða hvernig mál hafa þróast eftir hrunið. Þessi skýrsla liggur nú fyrir.

„Mikilvægt er að umræðan um jafn mikilvægan þátt eins og fólksflutninga sé málefnaleg og byggð á réttum upplýsingum. Ísland þarf að geta boðið íbúum sínum góð lífsskilyrði sem standast samanburð við það besta í nágrannalöndunum og við megum ekki missa margt fólk úr landi til lengri tíma, því er mikilvægt að fylgjast með stöðu mála á hverjum tíma. Þess vegna var beðið um þá úttekt sem nú liggur fyrir“ segir velferðarráðherra.

Fólksflutningar á tímum samdráttar

Fjallað er um fólksflutninga til og frá Íslandi á árunum 1961–2011 með áherslu á flutninga á samdráttarskeiðum, í nýrri skýrslu velferðarráðuneytisins.

Markmið velferðarráðuneytisins er að draga fram helstu staðreyndir um þróun mannfjöldans á Íslandi sem innlegg í umræðu sem verið hefur áberandi síðustu misseri, þar sem því hefur meðal annars verið haldið fram að brostinn sé á fólksflótti frá landinu sem muni hafa alvarlegar félagslegar og efnahagslegar afleiðingar. Ólöf Garðarsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, vann skýrsluna fyrir velferðarráðuneytið og er höfundur hennar. Ólöf er doktor í sagnfræði, hefur lagt stund á rannsóknir á sviði félagssögu og fólksfjöldasögu og var deildarstjóri mannfjöldadeildar Hagstofu Íslands árin 2002–2007.

Helstu niðurstöður

Árið 2009 fækkaði landsmönnum eftir mikla fólksfjölgun á þensluskeiðinu 2004–2008 en tók aftur að fjölga árin 2010 og 2011 þótt fjölgunin sé umtalsvert minni en flest ár síðustu áratuga.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna meðal annars að tíðni flutningsjöfnuðar meðal íslenskra ríkisborgara (aðfluttir Íslendingar að frádregnum brottfluttum af hverjum 1.000 íbúum) hefur frá árinu 2009 verið svipaður og á öðrum samdráttarskeiðum, svo sem um miðjan tíunda áratuginn og í kjölfar hruns síldarstofnsins í lok sjöunda áratugarins.

Skýrsluhöfundur ber saman fólksflutninga frá Íslandi árið 2009 og fólksflutninga frá Færeyjum þegar þeir voru mestir á tíunda áratugnum; árin 1993 og 1994. Hlutfall Færeyinga sem fluttu burt á þessum tíma var um fimmfalt hærra en meðal Íslendinga sem fluttust héðan.

Svipað hlutfall og áður snýr heim á ný

Athugun á endurkomuhlutfalli innan þriggja ára frá brottför í hópi Íslendinga sem fluttu frá landinu árin 2008 og 2009 sýnir að endurkomuhlutfall þeirra er svipað og verið hefur undanfarna tvo áratugi.

Íslendingar sem flytjast af landi brott fara flestir til Noregs líkt og á við um búferlaflutninga annarra Norðurlandaþjóða. Í Noregi hefur hlutfall íbúa sem eiga ríkisfang annars staðar á Norðurlöndunum margfaldast á síðastliðnum rúmum áratug.

Flutningar erlendra ríkisborgara

Umfangsmestu breytingar á flutningum erlendra ríkisborgara til og frá Íslandi urðu á þensluskeiðinu um miðjan nýliðinn áratug og hefur þróuninni verið líkt við það sem kallað hefur verið gorkúlubær (e. boomtown) þar sem íbúum fjölgar hratt vegna aðflutnings vinnuafls. Kynjahlutfall aðfluttra gjörbreyttist þar sem hlutfallslega mun fleiri karlar komu hingað en konur, ólíkt því sem áður hafði verið.

Árin 2006–2007 voru aðfluttir erlendir ríkisborgarar um 10.826 fleiri en þeir sem fluttust brott, flutningsjöfnuður hér á landi var hærri en í nokkru öðru Evrópulandi og hlutfall erlendra ríkisborgara á Íslandi óx frá því að vera hið lægsta á Norðurlöndunum upp í að vera það hæsta.

Þótt verulega hafi dregið úr flutningum útlendinga til Íslands árin eftir hrun og hlutfallslega fleiri flytjist frá landinu en til þess, hafa engu að síður fleiri erlendir ríkisborgarar flutt til landsins árin 2009, 2010 og 2011 en nokkurt ár fyrir árið 2005. Skýrsluhöfundur bendir á að í ljósi þess hve margir útlendingar fluttu til landsins í aðdraganda hrunsins sé athyglisvert hve brottflutningur er lítill í hópi erlendra ríkisborgara þótt flutningsjöfnuður í þeirra hópi sé vissulega neikvæður.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta