Drög að breyttum reglum um björgunar- og öryggisbúnað skipa til umsagnar
Til umsagnar eru nú hjá Innanríkisráðuneytinu drög að reglugerð um breytingu á reglum um björgunar- og öryggisbúnað íslenskra skipa, nr. 189/1994, með síðari breytingum. Umsagnafrestur um drögin er til 1. maí 2012 og skal senda umsagnir á netfangið [email protected].
Markmið þessarar reglugerðar er að auka öryggi sjófarenda með því að gera öllum skipum 8 m að lengd og lengri skylt að vera búin björgunarbúningum fyrir alla skipverja. Í núgildandi reglum er krafa um björgunarbúninga fyrir alla skipverja takmörkuð við 12 m skip eða lengri. Minni skipum er þó gert að hafa um borð viðurkenndan vinnufatnað, sem er einangrandi og búinn floti, fyrir alla um borð.
Í 1. gr., sem breytir 3.5. gr., er sú skylda lögð á hvert skip 8 m að lengd og lengra að vera búið björgunarbúningum fyrir alla skipverja. Siglingastofnun Íslands er þó veitt heimild til að víkja frá þessu ákvæði fyrir skip 8-12 m að lengd ef sýnt þykir að ekki sé hentugt rými um borð til að geyma björgunarbúningana með forsvaranlegum hætti né rými til að klæðast þeim. Sama á við um báta sem stunda aðeins veiðar í atvinnuskyni innan 1,5 sjómílna frá landi.
Í 2. gr., sem breytir 3.8. gr., er bátum sem notaðir eru í atvinnuskyni og ekki er skylt að nota björgunarbúninga gert að hafa um borð viðurkenndan vinnufatnað fyrir alla um borð sem er einangrandi og búinn floti. Þeir bátar sem hér falla undir eru þeir sem eru minni en 8 m að lengd og þeir sem Siglingastofnun Íslands hefur veitt undanþágu frá skyldu 3.5. gr.