Umhverfisráðherra heimsækir Landmælingar
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra heimsótti Landmælingar Íslands á Akranesi í dag. Í heimsókninni fékk hún upplýsingar um það nýjasta í starfsemi stofnunarinnar og heilsaði upp á starfsfólk auk þess sem hún tók við fyrsta prentaða eintakinu af Landshæðakerfi Íslands.
Heimsóknin hófst á því að forstjóri stofnunarinnar, Magnús Guðmundsson og forstöðumenn sviða, kynntu fyrir ráðherra helstu verkefni Landmælinga Íslands. Meðal annars fékk ráðherra kynningu á stafræna kortagrunninum IS 50V sem inniheldur upplýsingar af fjölbreyttum toga, rætt var um grunngerð landupplýsinga (INSPIRE), nýja landupplýsingagátt og gagnagrunn um vegi og slóða svo eitthvað sé nefnt.
Þá ávarpaði ráðherra starfsfólk og tók á móti útprentun af Landshæðakerfi Íslands. Landshæðakerfið var gefið út í fyrsta sinn í fyrra á rafrænu formi en það hefur að geyma sameiginlegt hæðarkerfi fyrir allt landið. Mikil vinna liggur að baki útgáfunni en mælingar fyrir kerfið hafa staðið yfir í tæpa tvo áratugi og verður þeirri vinnu haldið áfram.
Að því loknu voru húsakynnin skoðuð og fékk ráðherra þá nánari upplýsingar um einstaka þætti starfseminnar.
Landmælingar Íslands starfa samkvæmt lögum um landmælingar og grunnkortagerð og er markmiðið með starfseminni að tryggja að ávallt séu til aðgengilegar og áreiðanlegar staðfræðilegar og landfræðilegar grunnupplýsingar um Ísland.
Var heimsóknin bæði fróðleg og áhugaverð í alla staði.