Kallað eftir skoðunum almennings um forgangsmál á umhverfissviði
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur sett af stað samráðsferli á netinu um sjöundu aðgerðaáætlun sína í umhverfismálum (7th EAP - Environmental Action Programme) þar sem almenningi, hagsmunaaðilum, frjálsum félagasamtökum og fleirum gefst kostur á að koma á framfæri sínum sjónarmiðum varðandi það hvaða umhverfismál ætti að setja í forgang fram til ársins 2020.
Framkvæmdastjórnin stefnir á að kynna drög að aðgerðaáætluninni í lok ársins. Undanfarna mánuði hefur ESB samþykkt ýmsar áætlanir og aðgerðir á sviði umhverfismála, s.s. vegvísi um auðlindanýtingu, áætlun ESB um líffræðilegan fjölbreytileika sem gildir fram til ársins 2020 og erindi um hvernig bæta megi innleiðingu umhverfisáætlana ESB.
Þessar aðgerðir miða allar að því að bæta samkeppnishæfi Evrópu og auka viðnámsþrótt vistkerfa hennar og eru einnig óaðskiljanlegur hluti áætlunarinnar Evrópa 2020 sem miðar að sjálfbærum vexti.
Sjöunda aðgerðaáætlun ESB í umhverfismálum verður heildstæður rammi fyrir slíkar áætlanir og aðgerðir. Framkvæmdastjórn Evrópu og Evrópuþingið hafa þegar lagt línurnar fyrir það sem koma skal en í aðgerðaáætluninni verða sett fram markmið og skuldbindingar, s.s. að bæta innleiðingu og eftirfylgni Evrópureglna, að tryggja að aðrar Evrópuáætlanir hafi loftslags og umhverfismál að leiðarljósi og að stuðla að vísindalegri þekkingu sem er forsenda þess að þróa og innleiða áætlanir í umhverfismálum.
Aðgerðaáætlun ESB í umhverfismálum er ekki lagalega bindandi og fellur ekki undir EES samninginn. Ísland hefur eigi að síður tekið þátt í tveimur síðustu áætlunum og getur málið því varðað Íslendinga beint. Þá gæti áætlunin haft áhrif á lagaumhverfi ESB í umhverfismálum og þannig haft bein áhrif íslenska löggjöf vegna EES samningsins.
Samráðsferlið stendur til 1. júní næstkomandi.