Vala Matt leiðir ferðamenn í matarævintýraferð um Ísland
Íslenskir og erlendir ferðamenn eiga von á góðu þegar þeir ferðast um landið því að út um allt eru framúrskarandi veitingastaðir sem ljúf upplifun er að heimsækja. Malarkaffi á Drangsnesi, Bakkabrim á Eyrarbakka og Smyrlabjörg á Hornafirði eru dæmi um spennandi veitingastaði sem Valgerður Matthíasdóttir fjallar um í „Iceland Local Food Guide“ sem ferðamenn geta nálgast jöfnum höndum á netinu, í snjallsímanum eða í þar til gerðum bæklingi.
Á allra næstu dögum verður fjölmiðlunarverkefnið „Iceland Local Food Guide“ kynnt með pompi og prakt en þar má finna upplýsingar um veitingastaði og framleiðendur um allt land sem bjóða staðbundinn íslenskan sælkeramat og íslenskar sælkeraafurðir. Fjallað er um matarhefðir í hverjum landshluta og á sérstöku matarkorti má fá upplýsingar um veitingastaði og matarframleiðendur.
Á vefnum verða birt myndbönd um sælkerastaðina og framleiðendurna og jafnframt uppljóstra kokkarnir uppskriftunum á bak við nokkra himneska rétti. Aðrar heimasíður styðja einnig verkefnið með umfjöllun og myndböndum, svo sem á You Tube og Vimeo og Twitter. Jafnframt er sérstök Icelandlocalfoodguide síða á Facebook þar sem má sjá myndbönd og hvers konar upplýsingar og sérstakur kóði fyrir snjallsíma verður aðgengilegur bæði í bæklingnum og einnig á heimasíðunum.
„Iceland Local Food Guide“ er nútíminn í hnotskurn. Tölvan, snjallsímar með kóða, spjaldtölvur og prentmiðlar - allt vinnur saman að því að miðla þessum bragðgóðu upplýsingum. Sérstök umfjöllun og áhersla verður lögð á að miðla upplýsingum um þá aðila sem hafa opið allt árið um kring.