Græna og bláa hagkerfið í brennidepli á fundi um Ríó+20
Í gær var haldinn opinn fundur um Ríó+20 ráðstefnuna um sjálfbæra þróun sem haldin verður í Rio de Janeiro í júní n.k. Margt fróðlegt kom fram á fundinum en yfirskrift hans var: „Leiðin til Ríó: Sjálfbær þróun og tækifæri græns hagkerfis“. Græna hagkerfið sem leið að sjálfbærri þróun var áberandi í umræðum, enda er það eitt af meginþemum Ríó+20 ráðstefnunnar.
Einnig bar hið svokallaða bláa hagkerfi mikið á góma en það vísar til efnahagslegs mikilvægis hafsins. Málefni hafsins eru eitt af fjórum áhersluatriðum Íslands fyrir Ríó+20 en nánar má lesa um þau áhersluatriði hér. Búast má við að hafið gegni stóru hlutverki í Ríó enda mikið um það fjallað í drögum að niðurstöðu ráðstefnunnar. Eins og fram kom á fundinum í gær fær mannkyn um sjötta hluta fæðu sinnar úr hafinu en fæðuöryggi og minnkun fátæktar eru lykilatriði í sjálfbærri þróun. Á fundinum kom einnig fram að höfin binda um fjórðung koltvísýrings sem við losum út í andrúmsloftið og hægja þar með á hlýnun vegna gróðurhúsaáhrifa þótt afleiðingar þessa á lífríki hafsins séu ófyrirséðar.
Fundinum lauk með líflegum pallborðsumræðum milli umhverfisráðherra og fulltrúa stjórnmálaflokka en endurnýjun pólitískra heita er meðal þess sem vænst er að komi út úr Ríó+20. Mikið þarf enn til ef markmið sjálfbærrar þróunar eiga að nást fyrr en síðar.