Norrænt ofurtölvuver formlega tekið í notkun
Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra vígði norræna háhraðatölvu, sem komið hefur verið upp hér á landi í samstarfi Háskóla Íslands og þriggja norrænna rannsóknarstofnana.
Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra vígði mánudaginn 16. apríl norræna háhraðatölvu, sem komið hefur verið upp hér á landi í samstarfi Háskóla Íslands og þriggja norrænna rannsóknarstofnana, Danish Center for Scientific Computing, Swedish National Infrastructure for Computing og UNINETT Sigma í Noregi. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur stutt verkefnið frá upphafi. Verkefnið er unnið í nánu samstarfi við gagnaverið Advania Thor Data Center í Hafnarfirði sem hýsir háhraðatölvuna.
Norræna háhraðatölvan er hluti af tilraunaverkefni til þriggja ára. Háhraðatölvur eru sífellt mikilvægari í rannsóknum og nýsköpun, en þær útheimta afar mikla orku. Kallað er eftir því að finna hagkvæmar lausnir, bæði hvað varðar sameiginlegan rekstur og lækkun á rekstrarkostnaði. Önnur markmið verkefnisins eru að kanna pólitískar, skipulagslegar og tæknilegar hliðar á sameiginlegu eignarhaldi, umsjón og rekstri svo dýrs og mikilvægs rannsóknainnviðar. Heildarfjárfesting í verkefninu nemur rúmlega einni milljón evra eða um 160 milljónum króna.
Háskóli Íslands varð hlutskarpastur þriggja norrænna háskóla í útboði um rekstur háhraðatölvunnar. Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands og fulltrúar norrænu stofnananna sem standa að verkefninu undirrituðu samkomulag þess efnis á Háskólatorgi fyrir rétt um ári.
Ísland er kjörin staðsetning fyrir slíkar tölvur vegna umhverfisvænna orkulinda sem geta veitt aðgang að orku á lágu verði og hagkvæmri kælingu. Þátttaka Íslands í verkefninu felur ótvírætt í sér aukin tækifæri til samstarfs um vísindarannsóknir. Það felur einnig í sér möguleika á markaðssetningu Íslands sem ákjósanlegs staðar fyrir orkufreka samhliða tölvuvinnslu og er fordæmisgefandi fyrir verkefni af sama toga.
Efnt var til ráðstefnu í Norræna húsinu í tilefni þess að háhraðatölvan var tekið í gagnið en að henni lokinni var haldið í Advania Thor Data Center gagnaverið í Hafnarfirði þar sem Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra vígði tölvuna að viðstöddum fulltrúum eigenda frá hinum norrænu ríkjunum sem koma að verkefninu.
- Nánari upplýsingar um verkefnið má finna á vef þess.