Framtíðin liggur í kítósan ... nú er það skelin sem er dýr!
Fyrirtækið Primex hlaut í dag Nýsköpunarverðlaun Íslands 2012 en fyrirtækið byggir velgengni sína á afurð sem áður var hent – rækjuskel!
Primex hefur alla tíð lagt mikla áhersla á nýsköpun, vöru- og markaðsþróun svo og þróun á framleiðslutækni. Fyrirtækið er í dag leiðandi fyrirtæki á heimsmarkaði í framleiðslu og sölu á hágæða kítín og kítósan sem unnin er úr rækjuskel en vegna einstakra eiginleika kítins er það notað í ótal vörur sem spanna allt frá fæðubótarefnum til græðandi sáraumbúða. Fyrirtækið býður mjög breytt úrval af kítósanafurðum sem hafa mismunandi eiginleika og virkni fyrir þær vörur sem þær eru notaðar til. Öll framleiðsla fyrirtækisins fer á erlendan markað og er fyrirtækið mjög mjög öflugt sölu- og dreifingarnet um allan heim. Primex tekur virkan þátt í nýsköpun með viðskiptavinum sínum sem felst m.a. í ráðgjöf, þjónustu og þróun kítósanafurða sem þörf er á fyrir þeirra nýsköpunarstarf.
Styrkur Primex felst m.a. í uppruna, hreinleika og gæðum hráefnisins sem kítosan er unnið úr, þ.e. Norðu-Atlandshafsrækju, hreinleika íslenska vatnsins og þeirri mikla reynslu og þekkingu sem skapast hefur hjá fyrirtækinu á framleiðslu kítósan. Ímynd Íslands erlendis sem hreins og ómengaðs lands sem nýtir sjávarfang á sjálfbæran máta hefur einnig haft mikið að segja í markaðs og sölustarfinu. Framleiðslan hjá Primex hefur bæði hlotið ISO 22000 gæðastaðal og einnig vottun frá TÚN um náttúrulega framleiðslu. Þá heldur fyrirtækið svokallað grænt bókhald um starfsemina. Þessir staðlar auk markmiðs fyrirtækisins um sífellda aukningu á gæðum vörunnar hafa skilað Primex inn á mun verðmætari markaði.
Megináhersla er lögð á þá markaði sem gefa mestan virðisauka og þeir eru helstir:
Fæðubótamarkaðurinn: Kítósan bindur fitu fæðunnar í meltingarvegi þannig að hún meltist ekki og stuðlar þannig að lækkun þyngdar. Kítósanafurð Primex, LipoSan Ultra er einkaleyfisvarin og hefur mjög sterka stöðu á þessum markaði. Hún er yfirleitt seld í töfluformi eða sem hylki en þarna eru mörg áhugaverð nýsköpunartækifæri í þróun tilbúinna heilsudrykkja og heilsufæðis fyrir neytendamarkaðinn.
Snyrtivörumarkaðurinn: Ýmsir eiginleikar kítósan eru mjög áhugaverðir fyrir snyrtivörumarkaðinn og er kítósan notað í ýmsar vörur eins og and-, húð- og andlitskrem (m.a. rakabindandi, bætir húð), sjampó og aðrar hárvörur (eykur m.a. glans, lyftingu, rafmögnun) og tannkrem (ver tennur og vinnur gegn sýkingu í munni). Primex selur nú þegar kítósanafurðir m.a. til stórfyrirtækja á þessum markaði. Mikil áhersla er á þessum markaði fyrir náttúrulegar vörur og styrkir það möguleika kítósan á þessum markaði auk þess fjölþætt virkni kítósan skapar mörg ný tækifæri og gefur möguleika á að skipta út á einu bretti mörgum kemískum innihaldsefnum sem notuð eru í dag.
Sáravörumarkaðurinn: Kítósan býr yfir mjög mikilvægum eiginleikum og er t.d. mjög græðandi, dregur úr sársauka, dregur úr kláða, stoppar blæðingu (Hemostatic), ver sár með því að mynda filmu, bakteríu- og sveppadrepandi, hindrar sýkingu og dregur úr roða. Sem dæmi má nefna að hermenn, m.a. í Bandaríkjaher, bera á sér sérstakar sáraumbúðir með kítósan frá Primex sem ætlað er að stöðva blæðingu eftir skotsár. Primex framleiðir sérstakan flokk kítósanefna fyrir þennan markað og hefur einnig þróað tilbúnar vörur, s.s. sáragel og sáraspray.
Matvælamarkaðurinn: Margvísleg virkni og eiginleikar kítósan gera það sérlega áhugavert fyrir matvælaiðnað. Það eykur m.a. geymsluþol á náttúrulegan hátt, minnkar grugg við vín-, öl-. og ávaxtasafavinnslu, auk virkni þess sem markfæðis svo sem hindrun á meltingu fitu úr fæðunni, lækkun kólesteróls, andoxunarvirkni og sem náttúrulegs trefjaefnis.