Hoppa yfir valmynd
19. apríl 2012 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Vegna frétta á kostnaði við Icesave-samninga

Í sl. viku voru fluttar fréttir af mati ráðgjafafyrirtækis á kostnaði við þá Icesave-samninga sem Alþingi samþykkti í janúar 2011, en lög um veitingu ríkisábyrgðar vegna þeirra samninga voru felld úr gildi með þjóðaratkvæðagreiðslu í apríl sama ár. Samkvæmt þessum fréttum hefði kostnaður ríkissjóðs vegna samninganna  orðið um 80 ma.kr., en þar eru ekki frádregnar eignir Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta (TIF) sem komið hefðu til frádráttar kostnaði ríkissjóðs.

Fjármálaráðuneytið hefur reglulega uppfært mat sitt á kostnaði við samninginn, en niðurstöður þess hafa breyst í takt við (i) endurmat slitastjórnar, áður skilanefndar, Landsbanka Íslands (LÍ) á virði eigna þrotabúsins, (ii) mati á tímasetningum á greiðslum úr búinu og (iii) breytingar á gengi íslensku krónunnar. Allir þessir liðir eru breytingum háðir, eins og ávallt hefur verið lögð áhersla á í fyrirvörum ráðuneytisins. Líkt og ráðuneytið taldi líklegt hafa eignaheimtur þrotabúsins batnað umtalsvert og nú má telja fullvíst að eignir nægi fyrir almennum innstæðum. Gengi íslensku krónunnar hefur á hinn bóginn veikst á síðustu mánuðum og hefur það áhrif til hækkunar á virði eigna, en samhliða hefðu greiðsluskuldbindingar í erlendri mynt hækkað í krónum talið.

Í útreikningum ráðuneytisins hefur hingað til verið gert ráð fyrir að skipti búsins fari fram í íslenskum krónum og að greiðslur til kröfuhafa miðist við gengi krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum á greiðsludegi. Var það gert í samræmi við þau lögfræðiálit sem fyrir lágu. Slitastjórn Landsbankans hefur nú hins vegar boðað að miðað verði við gengi gjaldmiðla í byrjun skipta í apríl 2009. Þetta hefur augljóslega áhrif á mat á kostnaði við samningana.  Telja má líkur á að dómstólar muni skera úr um hvor leiðin verði farin enda er það háð lagalegri óvissu.

Varðandi áætlanir um vaxtakostnað er rétt að benda á  að heildarvaxtakostnaður vegna samninganna var skv. frumvarpi um samningana áætlaður 76 ma.kr. út greiðslutímann, en hann hefur breyst lítillega sem skýrist af drætti á útgreiðslum á árinu 2011 og lækkun á gengi krónunnar, sem gæti gengið tilbaka. Athuga þarf að hér er ekki um hreinan kostnað ríkissjóðs að ræða

Rétt þykir að gera grein fyrir niðurstöðum útreikninga á kostnaði ríkisins vegna samninganna sem annars vegar miða við fyrri forsendur um uppgjör við kröfueigendur og hins vegar við boðaða aðferð slitastjórnar.

Í báðum tilvikum er miðað við forsendur slitastjórnar um heimtur eigna og tímasetningu á greiðslum til kröfuhafa:

I.        Kostnaður skv. fyrri forsendum

Hér er miðað við að meðalgengi krónunnar við útgreiðslur verði það sama og á greiðsludegi í desember 2011, þegar fyrsta útgreiðsla átti sér stað. Hreinn kostnaður ríkissjóðs samkvæmt þessum útreikningum hefði orðið innan við 1,8% af vergri landsframleiðslu (VLF) eða 29 ma.kr. Í þessu tilviki getur gengið þróast með ýmsum hætti, sem hefur áhrif á hreinan kostnað vegna samninganna.

II.        Kostnaður skv. boðaðri aðferð við uppgjör krafna

Í þessu tilviki er miðað er við að uppgjör krafna miðist við fast gengi krónunnar eins og það var í apríl 2009. Hreinn kostnaður ríkissjóðs vegna samninganna yrði samkvæmt þessum forsendum því sem næst 3,9% af vergri landsframleiðslu, eða um 63 ma.kr.  

Ljóst er að í fyrra tilvikinu breytast niðurstöður í takt við (i) breytingar á gengi krónunnar ef svo fer að miðað verði við breytilegt gengi í uppgjöri gagnvart kröfueigendum og (ii) breytingar á tímasetningu á  greiðslum úr þrotabúinu miðað við núverandi áætlanir slitastjórnar. Til að mynda mun salan á Iceland-matvörukeðjunni væntanlega flýta útgreiðslum og þar með lækka áætlaðan kostnað samkvæmt samningnum. Í síðara tilvikinu er það hins vegar eingöngu tímasetning útgreiðslna sem breytt getur niðurstöðum þar sem miðað er við fast gengi.

Til samanburðar má nefna að í frumvarpi vegna Icesave-samninganna er hreinn kostnaður ríkissjóðs áætlaður 47 ma.kr., en þar voru jafnframt kynnt frávik frá þeirri áætlun þar sem kostnaður nam annars vegar 12 ma.kr. (betri útkoma) og hins vegar 113 ma.kr.  (verri útkoma).

Að endingu er rétt að taka fram að dómstólar kunna að taka afstöðu til forgangs TIF vegna lágmarksinnstæðna gagnvart öðrum innstæðum (svk. Pari Passu-ákvæði samninganna). Yrði slíkur forgangur talinn vera til staðar hefði það veruleg áhrif til lækkunar á vöxtum, enda má vænta þess að lágmarksinnstæður yrðu þá að fullu greiddar við næstu úthlutun slitastjórnar.

Fjármálaráðuneytið mun uppfæra framangreint mat ef og þegar tilefni er til.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta