Hoppa yfir valmynd
20. apríl 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Katrín Jakobsdóttir hittir fagráð eineltismála

Í tilefni af því að fagráðið er tekið til starfa átti ráðherra fund með því ásamt verkefnisstjóra og starfsmönnum ráðuneytisins.

Fagráð
Fagráð

Mennta- og menningarmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir staðfesti þann 10. mars 2012 verklagsreglur um starfsemi fagráðs eineltismála í samræmi við reglugerð nr. 1040/2011 um ábyrgð og skyldur skólasamfélagsins í grunnskólum. Ráðherra skipaði einnig þriggja manna fagráð til eins árs og í því eru Arnheiður Gígja Guðmundsdóttir náms- og starfsráðgjafi, Páll Ólafsson félagsráðgjafi og Þórkatla Aðalsteinsdóttir sálfræðingur. Með fagráðinu starfar Árni Guðmundsson verkefnisstjóri verkefnastjórnar um aðgerðir gegn einelti í skólum og á vinnustöðum. Í tilefni af því að fagráðið er tekið til starfa átti ráðherra fund með því ásamt verkefnisstjóra og starfsmönnum ráðuneytisins.
Fagráðið hefur einkum tvíþætt hlutverk gagnvart málum sem því berast. Í fyrsta lagi að leita að viðunandi niðurstöðu með sáttum, sé þess nokkur kostur og í öðru lagi að úrskurða á grundvelli þeirra gagna og upplýsinga, sem fyrirliggjandi eru. Ef fagráðið telur að ekki liggi fyrir nægilega greinargóðar upplýsingar skal það leitast við að afla þeirra, annaðhvort með formlegum hætti eða með viðtölum við málsaðila. Úrskurðir fagráðsins eru ráðgefandi.

Miklar væntingar eru bundnar við starfsemi fagráðs í eineltismálum í grunnskólum sem muni nýtast til að finna úrlausn á erfiðum tilvikum, sem ekki hefur tekist að leysa í nærsamfélaginu. Með samhentum kröftum allra aðila skólasamfélagsins, þ.e. starfsfólks skóla, nemenda foreldra auk sérfræðiþjónustu sveitarfélaga, annarra stuðningsaðgerða og nú tilkomu sérstaks fagráðs, ættu að skapast enn betri skilyrði til að útrýma einelti úr samfélaginu. Einelti er ofbeldi og á ekki að fá að þrífast í skólum eða annars staðar í samfélaginu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta