Nefnd sem móta skal stefnu um lagningu raflína í jörð
Alþingi samþykkti í vor þingsályktunartillögu um mótun stefnu vegna lagningar raflína í
jörð og þau sjónarmið sem taka ber mið af hverju sinni við ákvarðanir þar um.
Iðnaðarráðherra í samráði við umhverfisráðherra hefur skipað þriggja manna nefnd og skilar niðurstöðum til iðnaðarráðherra sem skal flytja Alþingi skýrslu um störf nefndarinnar fyrir 1. október 2012.
Þann 1. febrúar 2012 var á Alþingi samþykkt þingsályktunartillaga þar sem iðnaðarráðherra í samráði við umhverfisráðherra er falið að skipa nefnd er móti stefnu um lagningu raflína í jörð og þau sjónarmið sem taka ber mið af hverju sinni við ákvarðanir þar um.
Nefndin hefur tekið til starfa og formaður hennar er Gunnar Svarvarsson, fyrrverandi alþingismaður og ásamt honum eru í nefndinni þau Guðríður Þorvarðardóttir, sérfræðingur í umhverfisráðuneytinu og Ómar Örn Ingólfsson, verkfræðingur. Starfsmenn nefndarinnar eru þær Erla Sigríður Gestsdóttir, sérfræðingur í iðnaðarráðuneytinu og Erla Björk Þorgeirsdóttir verkefnisstjóri hjá Orkustofnun.
Samkvæmt framangreindri þingsályktunartillögu skal iðnaðarráðherra flytja Alþingi skýrslu um störf nefndarinnar fyrir 1. október 2012. Óskað er eftir því að nefndin skili niðurstöðum sínum til iðnaðarráðherra fyrir 20. september 2012.
Í greinargerð með þingsályktunartillögunni kemur fram að á undanförnum árum hefur orkuframleiðsla á Íslandi aukist mjög og jafnframt gagnrýni á neikvæð umhverfisáhrif hennar.
Einn þáttur þeirra áhrifa er sjónmengun af völdum háspennulína og hefur sú krafa orðið háværari að jarðstrengir séu nýttir í stað loftlína. Mikilvægt er að fyrir liggi stefnumörkun um með hvaða hætti og á hvaða forsendum skuli stefnt að lagningu raflína í jörð og til hvaða þátta skuli sérstaklega taka tillit í þeim efnum.