Samningar undirritaðir að viðstöddum forsætisráðherrrum Íslands og Kína í dag í Þjóðmenningarhúsi
Í dag voru undirritaðir í Þjóðmenningarhúsi, sex samningar og samkomulög, að viðstöddum forsætisráðherrum Íslands og Kína, svo og öðrum ráðherrum sem sátu tvíhliða fundinn fyrr í dag.
Utanríkisráðherrar beggja ríkja undirrituðu Rammasamning ríkisstjórna Íslands og Kína um norðurslóðasamstarf. Samningurinn hefur verið í undirbúningi síðan utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, heimsótti kínverska starfsbróður sinn árið 2010. Samningurinn er grundvöllur frekari samstarfssamninga á einstökum sviðum norðurslóðamála og getur skapað vettvang fyrir frekara samstarf á sértækum sviðum, til dæmis varðandi rannsóknir, samgöngumál og fleira.
Einnig undirritaði utanríkisráðherra, ásamt ráðherra hafmála í Kína, samkomulag, byggt á rammasamningnum, um aukið samstarf á sviði sjávar- og norðurslóðarannsókna. Haldin var ráðstefna á síðasta ári þar sem vísindamenn sem sinna slíkum rannsóknum komu saman. Sú ráðstefna markaði upphafið að frekara samstarfi og gefur viljayfirlýsingin tækifæri til þess að byggja upp enn nánara samstarf og gefa íslenskum vísindamönnum kost á að taka þátt í rannsóknarleiðöngrum og samstarfsverkefnum.
Þriðja undirritunin var samkomulag um jarðhitasamstarf í þróunarríkjum, sem undirrituð var af utanríkisráðherra Íslands og ráðherra auðlinda- og landnýtingar í Kína.
Samstarfsyfirlýsingin gefur tækifæri til þess að Ísland og Kína vinni sameiginlega að rannsóknum, forkönnunum, þróun og framkvæmd á virkjun jarðhita í þróunarlöndum, meðal annars hugsanlega aðkomu Kína að samstarfi Íslands og Alþjóðabankans um þróun jarðhitanýtingar í sigdalnum í austurhluta Afríku.
Sameiginleg viljayfirlýsing íslenska ríkisins og kínverska fyrirtækisins BlueStar, var undirrituð af starfandi iðnaðarráðherra og forstjóra BlueStar. Viljayfirlýsingin snýr að byggingu kísilmálmvinnslu, allt að 65 þúsund tonn, og framhaldsvinnslu á efni til framleiðslu sólarrafhlaða, allt að 12 þúsund tonn. BlueStar er aðaleigandi Elkem í Noregi, eiganda Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga.
Samkomulag um ráðgjöf við fjárfestingar, milli Íslandsstofu og Þróunarbanka Kína var undirritað af framkvæmdastjóra Íslandsstofu og forstjóra Þróunarbanka Kína. Samkomulaginu er ætlað að auðvelda bæði leið íslenskra fyrirtækja til fjárfestinga í Kína, svo og að vera grundvöllur samstarfs við Íslandsstofu og Fjárfestingarstofu varðandi fjárfestingar kínverskra fyrirtækja hér á landi.
Að lokum var undirrituð samstarfsyfirlýsing tveggja einkafyrirtækja, Orku Energy Holding ehf. og China Petrochemical Corporation (Sinopec Group) kínverska fyrirtækisins Sinopec Group/Sinopec Star, um jarðvarmanýtingu til húshitunar og raforkuframleiðslu. Fyrirtækin hafa síðan árið 2006, í gegnum dótturfélög sín Enex-Kína ehf. og Sinopec Star Petroleum Company Limited, starfrækt félagið Shaanxi Green Energy Geothermal Development Co (SGE) í Kína. Hjá félaginu starfa um 270 manns og annast félagið nú þegar upphitun um sex milljóna fermetra atvinnu- og íbúðarhúsnæðis með nýtingu jarðvarma. Nýi samningurinn felur í sér skuldbindingu eigenda SGE til umtalsverðrar hlutafjáraukningar og áform um aukin umsvif félagsins. Meðal annars er stefnt að því að umfang hitaveitustarfseminnar verði orðið upphitun 100 milljóna fermetra árið 2020 og ráðgert að ráðast í jarðvarmavirkjanir til raforkuframleiðslu innan og utan Kína á næstu árum.