Undirritun samstarfssamninga við Kína um jarðhitasamstarf og heimskautamál
Í tengslum við opinbera heimsókn forsætisráðherra Kína, Wen Jiabao, til Íslands undirritaði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra í Þjóðmenningarhúsinu í dag samkomulag við Kínverja um jarðhitasamvinnu og samninga um samstarf í heimskautamálum.
Jarðhitasamstarfið snýr að samvinnu í þróunarríkjum og var samkomulagið undirritað af utanríkisráðherra Íslands og Xu Shaoshi, ráðherra auðlinda- og landnýtingar í Kína. Samkomulagið gefur tækifæri til þess að Ísland og Kína vinni sameiginlega að rannsóknum, forkönnunum, þróun og framkvæmd á virkjun jarðhita í þróunarríkjum, meðal annars mögulega aðkomu Kína að samstarfi Íslands og Alþjóðabankans um þróun jarðhitanýtingar í sigdalnum í austurhluta Afríku.
Þá undirrituðu utanríkisráðherra og Yang Jiechi, utanríkisráðherra Kína rammasamning um samstarf ríkjanna í málefnum norðurslóða með áherslur á rannsóknir og samgöngumál á norðurslóðum. Í tengslum við þann samning var svo undirritað samkomulag við Hafmálastofnun Kína um samstarf á sviði heimskauta- og hafrannsókna. Samningurinn og samkomulagið skapa tækifæri til frekari samvinnu milli íslenskra og kínverskra fræðimanna á sviði jöklafræði, loftslagsrannsókna, samgöngumála og hafrannsókna á heimskautasvæðum og á öðrum sviðum heimskautarannsókna.