Hoppa yfir valmynd
21. apríl 2012 Forsætisráðuneytið

Skoðunarferð í opinberri heimsókn forsætisráðherra Kína og málstofa um jarðhitamál

Forsætisráðherrar Íslands og Kína við Gullfoss
21 Forsætisráðherrar Íslands og Kína við Gullfoss

Forsætisráðherra Kína, Wen Jiabao, fór í dag í skoðunarferð ásamt forsætisráðherra, til Þingvalla, Gullfoss og Geysis. Forsætisráðherrarnir gengu um Þingvallaþjóðgarð og var sérstaklega kynnt jarðfræði og jarðsaga svæðisins, auk þess sem Ólafur Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörður, sagði frá upphafi Alþingis, menningu og sögu. Oddur Sigurðsson, jarðfræðingur var leiðsögumaður í ferð dagsins um jarðfræðileg efni og jarðsögu.

Farið var að Gullfossi og gengið frá efri útsýnispalli niður að fossinum sem skartaði sínu fegursta.

Á ferð milli Gullfoss og Geysis var komið við á Kjóastöðum II.  Þar tóku húsráðendur, Ása Viktoría Dalkarls og Hjalti Gunnarsson á móti forsætisráðherrunum á hestum við heimreið að bænum og riðu í bílalestinni heim að íbúðarhúsinu. Forsætisráðherrunum var boðið til stofu og upp á pönnukökur að íslenskum sið. Forsætisráðherra Kína ræddi við húsráðendur og börn þeirra um landbúnað og búskapinn. Eftir stutt spjall um landbúnað á Íslandi var farið í gripahús þar sem hestar, fé og landnámshænur voru skoðuð.

Að Geysi var jarðhitasvæðið skoðað og síðan snæddur hádegisverður á Hótel Geysi.

Ekið var til Hveragerðis þar sem tekið var vel á móti forsætisráðherra Kína við Hveragarðinn. Þar var forsætisráðherranum kynnt svæðið og skoðaðar þær jarðmyndanir og hverir sem þar eru innan bæjarmarkanna, auk þess sem gestir gæddu sér á Kjörís. Að lokum var komið við á veitingastaðnum Kjöt og Kúnst þar sem bragðað var á gufubökuðu brauði og skoðað ofan í útipottana, þar sem verið var að elda kvöldmatinn.

Lokaáfangi dagsins var í Hellisheiðarvirkjun, en þar tók utanríkisráðherra, starfandi iðnaðarráðherra á móti forsætisráðherra Kína, ásamt forstjóra Orkuveitunnar, Bjarna Bjarnasyni. Eftir kynningu og skoðun á orkuverinu og jarðhitasvæðinu var haldin málstofa þar sem Ingvar Birgir Friðleifsson, skólastjóri Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, ásamt átta meistara- og doktorsnemum við skólann, tók þátt í umræðum um jarðhitanýtingu á Íslandi og námið við skólann. Árný Erla Sveinbjörnsdóttir, prófessor í jarðvísindum við Háskóla Íslands, Oddur Sigurðsson, jarðfræðingur á Veðurstofu Íslands og Málfríður Ólafsdóttir umhverfisfræðingur sátu einnig málstofuna og tóku þátt í umræðum.

Eftir að málstofunni lauk skoðaði forsætisráðherra Kína og hluti sendinefndar vélasal og tæknirými virkjunarinnar í fylgd forstjóra Orkuveitunnar og utanríkisráðherra.

Opinberri heimsókn kínverska forsætisráðherrans lýkur á morgun, en hann heimsækir Þýskaland, Svíþjóð og Pólland í fjögurra landa heimsóknarferð sinni til Evrópu að þessu sinni.

Sjá myndir frá heimsókn forsætisráðherra Kína.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta